Fara í efni

Þrír styrkir til vestfirskra verslana

Fréttir

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur staðfest tillögur valnefndar um verkefnastyrki sem veittir eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036. Að þessu sinni var úthlutað fimmtán milljónum kr. til verslunar í dreifbýli fyrir árið 2024. Markmiðið er að styðja við rekstur dagvöruverslana í minni byggðarlögum fjarri stórum byggðakjörnum á fámennum markaðssvæðum til að viðhalda mikilvægri grunnþjónustu.

Þrír styrkir komu til verslana á Vestfjörðum. Hæsta styrkinn fékk Verzlunarfélag Árneshrepps, 3 milljónir kr., Verslunarfélag Drangsness fékk 2 milljónir kr. og eru þeir styrkir veittir til reksturs á árinu 2024, en verslun á Reykhólum hlaut 1,5 styrk vegna undirbúnings verslunar. Aðrir styrkþegar eru: Kríuveitingar, verslun í Grímsey, Verslunar og pöntunarþjónusta á Bakkafirði, Búðin, Borgarfirði eystri og Hríseyjarbúðin.

Þriggja manna valnefnd fór yfir umsóknirnar og gerði tillögur til ráðherra. Í valnefnd sátu þau Elín Gróa Karlsdóttir, verkefnisstjóri hjá Ferðamálastofu, Sigurður Árnason, sérfræðingur á Byggðastofnun, sem jafnframt er formaður og Snorri Björn Sigurðsson fyrrverandi forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar. Með valnefnd starfaði Sigríður K. Þorgrímsdóttir sérfræðingur hjá Byggðastofnun. Skipun valnefndar og mat umsókna voru í samræmi við reglur um úthlutun innviðaráðherra á framlögum sem veitt eru á grundvelli stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2022-2036.