Fara í efni

Tónlistarhátíðin Við Djúpið hafin

Fréttir

Í gær hófst tónlistarhátíðin Við Djúpið á Ísafirði. Sól skein skært á hátíðargesti sem hafa til margs að hlakka næstu daga, en glæsileg dagskrá hátíðarinnar stendur til 22. júní. Fjölmargir listamenn koma fram og leika fjölbreytt verk fyrir gesti, en hátíðin byggir ekki síður á metnaðarfullum námskeiðum fyrir tónlistarfólk og verða þau í gangi alla vikuna.

Ísafjörður er gjarnan kallaður tónlistarbærinn og stendur hann sannarlega undir nafni sem slíkur þessa dagana. Tónlistarbærinn hefur líka getið af sér einstakt tónlistarfólk og verða Ísfirðingar áberandi í dagskránni í ár.

Að þessu sinni ber hæst koma þýsku kammersveitarinnar Orchester im Treppenhaus. Hljómsveitin hefur getið sér einkar gott orð fyrir frísklega framkomu og fágaðan hljóðfæraleik. Við Djúpið er að jafnaði haldin þegar sól er hæst á lofti og á sumarsólstöðum leikur Orchester im Treppenhaus nýlega útsetningu hljómsveitarstjórans Thomasar Posth og Fynns Großmanns á Vetrarferð Franz Schuberts. Ísfirska sópransöngkonan Herdís Anna Jónasdóttir verður í förumannshlutverkinu í Vetrarferðinni en hún hefur áður komið fram með hljómsveitinni. Koma hljómsveitarinnar og Herdísar er mikið gleðiefni en þótt ótrúlegt megi virðast er þetta í fyrsta sinn sem Herdís Anna kemur fram á Við Djúpið.

Á meðan á hátíðinni stendur verður boðið upp á hádegistónleika í Bryggjusal Edinborgarhússins. Í dag kemur fram harmonikuleikarann Goran Stevanovic frá Bosníu-Hersegóvínu og á morgun amerískt píanótríó úr Antigone–tónlistarhópnum. Á fimmtudag frumflytur Sæunn Þorsteindóttir sellóleikari nýtt verk Veronique Vöku, Neige éternelle (ísl. Eilífur snjór). Tónleikarnir á föstudag nefnast Tvífarar og þar kemur fram Ísfirðingurinn Halldór Smárason ásamt tvífara sínum, bandaríska tónskáldinu Ellis Ludwig-Leone.

Alla hátíðardagana er boðið uppá að minnsta kosti tvenna tónleika og þegar nær dregur helgi fjölgar þeim. Tónleikarnir eru hver öðrum ólíkir, ný tónlist og gömul, flutt í stórum og smáum hópum. Á kvöldin fara tónleikar fram í Hömrum, sal Tónlistarfélags Ísafjarðar en hádegistónleikarnir fara fram í Bryggjusal Edinborgarhússins.

Námskeiðshald hefur frá upphafi verið burðarás í dagskrá tónlistarhátíðarinnar Við Djúpið og í ár kenna meðal annars meðlimir Orchester im Treppenhaus á kammertónlistarnámskeiði fyrir lengra komna hljóðfæranemendur. Í ár verður einnig kynnt til leiks nýjung í námskeiðahaldinu. Boðið verður upp á tónlistarleikjanámskeið fyrir börn þar sem áhersla er lögð á tónlistarleiki, söng, raddanir, aðferðir við að semja tónlist og spuna. Markmið námskeiðsins er að efla tónlistarþekkingu barna og kynna þeim nýjar og skemmtilegar hliðar tónlistarinnar. Það er Ísfirðingurinn Svava Rún Steingrímsdóttir og stallsystir hennar Katrín Karítas Viðarsdóttir sem leiða leikjanámskeið.

Við Djúpið hlaut styrk úr Uppbyggingarsjóði Vestfjarða 

Skoða má allt um hátíðina á heimasíðu hennar og einnig má fylgjast með gangi mála á Facebook.