Fara í efni

Umhverfisvottaðir Vestfirðir

Fréttir

Þann 8. nóvember síðast liðinn tóku sveitarfélögin á Vestfjörðum þýðingarmikið skref inn í framtíðina með því að gerast meðlimir hjá EarthCheck og hafa þau nú hafið vinnu sem miðar að því að umhverfisvotta öll níu sveitarfélögin á Vestfjörðum. Með þessu eru sveitarfélögin að skuldbinda sig til þess að taka mið af náttúrunni í öllum ákvörðunum sínum og tryggja sjálfbærni þeirra auðlinda sem til staðar eru á svæðinu.

 

Verkefnið er unnið af Fjórðungssambandi Vestfirðinga en hugmyndin kemur upprunalega frá Ferðamálasamtökum Vestfjarða, sem sýnt hafa verkefninu mikinn áhuga. Umhverfisvottun hefur verið eitt af viðfangsefnum síðustu tveggja Fjórðungsþinga og greinilegur áhugi sveitarstjórnafulltrúa á málefninu. Í upphaf ársins 2012 fékkst fjárstyrkur frá umhverfisráðuneytinu vegna undirbúningsvinnu fyrir Umhverfisvottaða Vestfirði og með þeim styrk er þetta fyrsta skref tekið.

 

EarthCheck eru viðurkennd vottunarsamtök sem hafa höfuðstöðvar í Ástralíu, þau eru einu vottunarsamtökin sem hafa umhverfisvottað starfsemi sveitarfélaga. Á Íslandi er fyrirtækið Grænir hælar umboðsaðili fyrir EarthCheck, en það er rekið af Guðrúnu Bergmann sem hefur starfað að umhverfismálum, umhverfisvænni ferðaþjónustu og umhverfisráðgjöf í meira en 20 ár. Guðrún vann einnig náið með Snæfellsnesi þegar sveitarfélögin þar fengu vottun frá EarthCheck.