Safnasjóður hefur auglýst eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum fyrir árið 2008. Sjóðurinn sem er í umsjón Safnaráðs veitir tvenns konar styrki, rekstrarstyrki til safna sem uppfylla ákveðnar reglur um umfang starfseminnar samkvæmt 10. grein safnalaga, en öll söfn sem falla undir safnalög samkvæmt 4. grein laganna geta sótt um verkefnastyrki. Safnasjóður styrkir menningarminjasöfn, náttúruminjasöfn og listasöfn.
Safnaráð úthlutar úr sjóðnum samkvæmt safnalögum og úthlutunarreglum ráðsins, en upphæð og fjöldi veittra styrkja fer eftir fjárveitingu á fjárlögum og umsóknum. Umsóknarfrestur er til 1. nóvember 2007 og á að skila umsóknum á þar til gerðum umsóknareyðublöðum. Allar nánari upplýsingar, umsóknareyðublað og safnalögin má nálgast á vefsíðu Safnaráðs - www.safnarad.is.