Undirbúningur fyrir barnamenningarhátíðina Púkann 2024 er kominn á fullt skrið og verður hann haldinn dagana 15.-26. apríl. Í endurmati á hinum fyrsta Púka sem fram fór síðasta haust kom fram að betur færi á að halda hátíðina að vori og því var ákveðið að kýla á næstu hátíð strax í vor, þó hún yrði minni í sniðum en sú fyrsta. Vestfirsk ungmenni völdu þema Púkans í ár sem er: Af hverju búum við hér?
Púkinn vinnur innan þriggja formerkja: að vinna að menningu með börnum, menningu fyrir börn og menningu sem börn skapa sjálf. Í ár verður höfuðáhersla lögð á síðastnefnda liðinn og unnið að listsköpun barnanna með ráðum og dáð.
Vestfjarðastofa leiðir vinnuna við Púkann en mikilvægt er að þetta sé hátíð sem flestra og það þýðir að gott samstarf þarf að vera á milli skóla, menningarstofnana og sveitarfélaga eftir því sem á við. Opinn fundur vegna Púkans 2024 verður á Teams fimmtudaginn 22. Febrúar kl. 11 og er hann ætlaður öllum þeim sem hafa áhuga á barnamenningu – en aðilar frá grunnskólum og menningarstofnunum eru sérstaklega hvattir til að mæta.
Á fundinum verður farið yfir þær hugmyndir sem komið hafa fram að verkefnum og listmiðlum fyrir hátíðina í ár og kallað eftir virku samtali við þá sem vinna með börnum á svæðinu og eru með vettvang til menningarstarfsemi.