Fara í efni

Unga fólkið og Vestfirðir árið 2045

Fréttir
Skjáskot úr einu myndbandanna
Skjáskot úr einu myndbandanna

Í gær fór fram í húsakynnum Vestfjarðastofu glæsileg Vörumessa ungra frumkvöðla sem nemar í hugmyndum og nýsköpun við Menntaskólann á Ísafirði stóðu að. Margt var um manninn þar sem fjöldi frábærra nýsköpunarverkefna voru kynnt.

Nemendur í áfanganum, sem er undir handleiðslu Ólafar Dómhildar Jóhannsdóttur, hafa sannarlega ekki setið auðum höndum. Fyrr á önninni fengum við hjá Vestfjarðastofu þau í samstarfsverkefni með okkur. Við efndum til hugmynda- og myndbandakeppni þar sem sendar voru inn hugmyndir í myndbandsformi um hvernig þeir sæju Vestfirði fyrir sér árið 2045. Höfðu þau nokkuð frjálsar hendur með hvað tekið væri fyrir á því sviði en okkur langaði mikið að forvitnast um hvað þau sem erfa munu land vildu sjá vera orðið að raunveruleika þá. Vestfjarðastofa vinnur um þessar mundir hvort tveggja að endurnýjun Sóknaráætlunar Vestfjarða og að nýju svæðisskipulagi fyrir Vestfirði. Á báðum vettvöngum er skýr framtíðarsýn fyrir svæðið lykilatriði og gaman að fá að skyggnast með þessum hætti inn í hugarheim unga fólksins.

Okkur bárust 13 myndbönd og það var virkilega gaman að sjá hugmyndirnar sem bárust. Á endanum valdi dómnefnd þrjú ólík myndbönd og hlutu nemendurnir sem að þeim stóðu 25.000 krónur í verðlaunafé. Hlekkir á myndböndin eru hér að neðan.

Neðansjávargöng undir Pollinn á Ísafirði er hugarfóstur þeirra Mathildu, Maríu og Úlfars. Hugmyndin er virkilega flott og frumleg og myndbandið skemmtilegt. Það væru ekki bara ferðamenn sem myndu taka slíkum göngum fagnandi heldur líka börn og ungmenni á leið sinni á milli Torfness og miðbæjar.

Hótel á Kaldbak er tillaga Þórunnar og Viktoríu. Á svæði þar sem ferðamennska er að miklu leyti bundin við sumarmánuðina var frábært að sjá þessa vel útfærðu hugmynd um hótel á toppi Vestfjarða.

Þriðja myndbandið sýndi hvernig lífið gæti mögulega litið út eftir 20 ár og voru það Unnur, Guðrún Helga, Jón og Adrian sem stóðu að því. Þau settu fram skemmtilegar pælingar um framþróun og nýtingu tækninnar. Myndbandið er stórskemmtilegt og vel gert.

Að auki voru veittar tvær sérstakar viðurkenningar sem hlutu 10.000 krónur hvor. Önnur var Lest á Vestfjörðum sem Abdulrahman, Agnes og Rögnvaldur kynntu og hin var Sjóböð í Skutulsfirði sem Svandís, Sigþrúður, Frosti og Guðmundur kynntu. Flestir geta vafalítið verið sammála um að það tvennt væri afskaplega vel þegið!

Við þökkum ungmennunum kærlega fyrir góða þátttöku og viljum benda á að við erum hvergi nærri hætt að leita til unga fólksins og virkja það til áhrifa. Á dagskrá er Ungmennaþing Vestfjarða sem haldið verður dagana 11.-12. apríl næstkomandi og verður þar kosið í Ungmennaráð Vestfjarða sem mun starfa undir Fjórðungssambandi Vestfirðinga. Að auki verður á þinginu farið í rýnihópavinnu með unga fólkinu fyrir Sóknaráætlun Vestfjarða.