Tveggja daga ungmennaþingi Vestfjarða sem haldið var í Menntaskólanum á Ísafirði lauk í dag. Þetta er í annað sinn sem slíkt er haldið og sótti það fimmtíu 13-18 ára ungmenni frá öllum sveitarfélögum á Vestfjörðum þar sem ungmenni eru búsett. Vilborg Pétursdóttir verkefnastjóri hjá Vestfjarðastofu hafði með höndum skipulagningu þingsins og Sævar Helgi Bragason var þingstjóri.
Á fyrsta ungmennaþinginu sem haldið var í Bjarnarfirði á Ströndum fyrir tveimur árum var valinn undirbúningshópur fyrir þetta þing sem kaus fyrir það þemað Náttúran og umhverfið. Auk þingstjórnar var Sævar Helgi með erindi um umhverfismál, sjálfbærni og loftslagsmál og svo um töfra náttúrunnar. Hjörleifur Finnsson verkefnisstjóri umhverfis- og loftslagsmála hjá Vestfjarðastofu var einnig með erindi um skyld mál.
Þingkonan Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir og Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar veittu ungmennunum innsýn í stjórnmál og stjórnsýslu. Þá fengu þau aðra heimsókn frá Vestfjarðastofu er Sigríður Kristjánsdóttir, Anna Sigríður Ólafsdóttir og Jóhanna Ösp Einarsdóttir kynntu Sóknaráætlun Vestfjarða. Nú stendur yfir vinna við gerð nýrrar sóknaráætlunar og voru þær með vinnustofu með krökkunum þar sem þau lögðu fram sína sýn á kosti og galla þess að búa á Vestfjörðum og framtíðarhorfur.
Kosið var í ungmennaráð Vestfjarða. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt er kosið og mun það starfa á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga og vera því til ráðgjafar. Ráðið er skipað til eins árs í senn, en þetta fyrsta ungmennaráð mun starfa fram á haust 2025 er næsta ungmennaþing verður haldið. Kosinn var einn aðalmaður og einn varamaður frá öllum þátttökusveitarfélögunum og mynda þessi hið fyrsta ungmennaráð:
Salvör Sól Jóhannsdóttir (formaður), Hildur Ása Gísladóttir (varaformaður), Soffía Rún Pálsdóttir (kynningarfulltrúi), Guðbjörg Ósk Halldórsdóttir (ritari), Þórgunnur Ríta Gústafsdóttir, Hávarður Blær Ágústsson, Rafael Filipe da Silva Rosa og Andrés Páll Ásgeirsson.
Varamenn eru: Jón Guðni Guðmundsson, Benedikt Einar Egilsson, Kristjana Kría Lovísa Bjarnadóttir, Ásborg Styrmisdóttir, Ingvar Þór Pétursson, Anastasia Kryzhanovska og Ásgeir Þór Marteinsson.
Það er alveg óhætt að segja að ungmennaþingið gefi góða von um framhaldið og það verður gaman að fylgjast með ráðgjafastörfum og verkum þessa unga og kraftmikla fólks.