Fara í efni

Úthlutun Lóunnar – 4 styrkir til Vestfjarða

Fréttir

Úthlutað hefur verið úr Lóunni, nýsköpunarstyrk fyrir landsbyggðina. Í ár hlutu 25 verkefni styrk þar af 4 verkefni frá Vestfjörðum.

Hlutverk Lóunnar er að styðja við nýsköpun, eflingu atvinnulífs og verðmætasköpun sem byggir á hugviti, þekkingu og nýrri færni á forsendum svæðanna sjálfra. Í ár var sérstaklega horft til verkefna sem komin eru af byrjunarstigi og tengjast samfélagslegum áskorunum á borð við loftslagsmál, sjálfbærni í heilbrigðis- og menntamálum og sjálfbærni í matvælaframleiðslu.

Heildarfjárhæð úr Lóu 2023 er 100 milljónir króna.

Eins og áður segir voru 4 verkefni frá Vestfjörðum sem fengu styrk en Vestfjarðastofa veitti ráðgjöf í flestum verkefnum með einum eða öðrum hætti. Við erum afar stolt af styrkþegum fyrir að ná þessum árangri og óskum þeim til hamingju.

Guðfinna Lára Hávarðardóttir á Stóra Fjarðarhorni í Kollafirði á Ströndum fékk 1.120.000 kr. í verkefnið Skel og Þörungaframleiðsla til nýtingar í landbúnaði. Með verkefninu er áætlað að hringrás næringarferla frá landi til sjávar verði opnuð. Þar eru tækifæri til aukinnar sjálfbærni og rekstrarhagkvæmni í landbúnaði.

Ískalk fékk 2.500.000 kr. í verkefnið Áburðurðarframleiðsla í héraði. Verkefnið gengur út á að nota kalkþörungamjöl og meltu frá laxeldi til að blanda við kúamýkju til þess að framleiða hágæða áburð á tún og lækka þannig kostnað bænda og minnka umhverfisáhrif.

Sjótækni fékk 4.000.000 kr. í verkefnið Bætt velferð laxa í sjókvíum. Tilgangur verkefnisins er að þróa aðferðir til að draga úr ásókn lúsar við sjókvíaeldi, auka þar með dýravelferð ásamt að bæta arðsemi og sjálfbærni fiskeldis. Aðferðin líkir eftir náttúrulegu atferli laxa til að hreinsa sig af laxalús (ferskvatn, hitabreytingar, straumur) og að einhverju leyti einnig með notkun á sérstökum hreinsiefnum

Fine Foods Islandica fékk 3.913.104 kr. í verkefnið Virðisaukandi vörur úr íslenskum sjávarafurðum og eldisþangi. Verkefnið snýst um að þróa sjálfbærar framleiðsluaðferðir til að búa til nýjar matvörur til að bæta ljúffengu bragði og næringu við daglegt mataræði. Fyrir Fine Foods Islandica stendur Jamie Lee en Jamie býr á Þorpum í Tungusveit á Ströndum.

Frekar um úthlutun Lóunnar má finna á vef Stjórnarráðsins