Fara í efni

Vel heppnað Fjórðungsþing í Trékyllisvík

Fréttir
Þingritarar að störfum
Þingritarar að störfum

Árlegt Fjórðungsþing Vestfirðinga var haldið dagana 11.-12. október í félagsheimilinu Árnesi í Trékyllisvík á Ströndum. Þingið er það 58. í röðinni en var nú haldið í fyrsta sinn í Árneshreppi. Sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum fjölmenntu á þingið og fóru þingstörfin vel og skipulega fram. Fjórðungsþingið ályktaði um fjöldamörg málefni sem varða heill og framtíð Vestfjarða og varð fundarmönnum tíðrætt um fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2014 og þau verkefni sem vestfirskum sveitarstjórnarmönnum finnst skorta að ríkisvaldið setji nægilegt fjármagn til. Ályktanir þingsins má nálgast undir þessum tengli og myndir frá Fjórðungsþinginu má finna á þessari síðu.

 

Meðal þess sem tíðrætt varð um voru sóknaráætlanir landshlutanna og fjármagn til niðurgreiðslu á raforkukostnaði á köldum svæðum. Úrbætur í samgöngu- og fjarskiptamálum voru einnig ofarlega í huga fundarmanna og samdar harðorðar ályktanir um þessi mál og fleiri. Þingið samþykkti einnig breytingar á samþykktum Fjórðungssambandsins sem gerðar eru í ljósi aukinna umsvifa í starfsemi sambandsins og nýlegar breytingar á sveitarstjórnarlögum.

 

Nánari upplýsingar gefur formaður stjórnar Albertína Fr. Elíasdóttir, í síma 848 4256.