Fara í efni

Vel heppnað listamannaþing á Patreksfirði

Fréttir

Þann 11. maí síðastliðinn stóð Félag vestfirskra listamanna fyrir Listamannaþingi á Patreksfirði í samvinnu við Menningarráð Vestfjarða og með stuðningi Sjóræningjahússins og Odda. Þar var haldinn aðalfundur félagsins, en auk þess voru framsögur og umræður um menningarmál á Vestfjörðum og hlutverk og verkefni félagsins. Aðalræðumaður dagsins var Karl Ágúst Úlfsson, en hátt í 30 manns sóttu þingið.

 

Síðustu tvö ár hefur félagið gefið út myndarlegt tímarit undir heitinu List á Vestfjörðum sem dreift hefur verið á öll heimili á Vestfjörðum og liggur víða frammi. Enginn bilbugur var á mönnum varðandi áframhald á þeirri útgáfu og lögðu fundarmenn áherslu á að halda sömu gæðum á því verkefni og verið hafa.

 

Stjórnarmenn í Félagi vestfirskra listamanna eru Anna Sigríður Ólafsdóttir, Elfar Logi Hannesson, Dagný Þrastardóttir og Ómar Smári Kristinsson.

Félagið á síðu á Facebook sem er á slóðinni: facebook.com/FelagVestfirskraListamanna.