Fara í efni

Vel heppnaður Forleikur

Fréttir

Frumsýning leiksýningarinnar Forleiks á veitingastaðnum Við Pollinn á föstudag heppnaðist í alla staði vel. Fjórir áhugaleikarar sýndu ólíka en afar áhugaverða íslenska leiki; Súsan baðar sig eftir Lárus Húnfjörð, Munir og minjar eftir Þórunni Guðmundsdóttur, Það kostar ekkert að tala í GSM hjá guði eftir Pétur R. Pétursson og Örvænting eftir Jónínu Leósdóttur. Leikarar eru þau Marta Sif Ólafsdóttir, Marsibil Kristjánsdóttir, Árni Ingason og Sveinbjörn Hjálmarsson og stóðu þau sig öll með mikilli prýði. Sýningin er metnaðarfull og stigu leikararnir ekki eitt feilspor undir styrkri leikstjórn Elfars Loga Hannessonar en Forleikur er samstarfsverkefni Kómedíuleikhússins og Litla leikklúbbsins á Ísafirði. Þá er sýningin hugsuð sem forleikur fyrir einleikjahátíðina Act alone sem fer fram á Ísafirði í byrjun júní.

Næsta sýning er á veitingastaðnum Við Pollinn á föstudagskvöld en því næst verða sýningar í Kjallaranum í Bolungarvík þann 6. júní og í Vagninum á Flateyri 7. júní. Sýningarnar hefjast kl. 21 og miðinn kostar 1.500 krónur.

Fréttin er afrituð óbreytt af fréttavefnum www.bb.is.