Þann 17. apríl stóð Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Markaðsstofa Vestfjarða fyrir súpufundi með ferðaþjónustuaðilum. Góð mæting var á fundinn, en tæplega 30 ferðaþjónar mættu og ræddu málefni greinarinnar.
Góðar umræður sköpuðust um sýn ferðaþjóna á markaðssetningu Vestfjarða og rætt var hvaða verkefni væru brýnust í þeim málum. Kom fram að ferðaþjónar telja mikilvægt að stoðkerfið markaðssetji Vestfirði sem áfangastað innlendra og erlendra ferðamanna. Jafnframt var nokkuð rætt um skort á gögnum og greiningum sem þurfa að vera fyrir hendinni til að hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um uppbyggingu og markaðssetningu.
Ein þeirra hugmynda sem ræddar voru á fundinum var að opna Vestfirska sölu og bókunarskrifstofu á höfuðborgarsvæðinu, sem hefði það að markmiði að selja ferðir allt árið til Vestfjarða ásamt því að kynna svæðið fyrir íbúum höfuðborgarsvæðisins og erlendum ferðamönnum sem þar dvelja. Atvinnuþróunarfélagið mun gera úttekt á rekstrarfyrirkomulagi þessarar hugmyndar og kanna rekstrargrundvöll hennar. Niðurstaða þeirra vinnu verður lögð fyrir ferðaþjóna.