Dagana 30.-31. janúar var ferðakaupstefna Icelandair Mid Atlantic haldin í 30. sinn. Viðburðinn sóttu um 700 alþjóðlegir kaupendur og seljendur, flestir seljendur komu frá Íslandi, en einnig voru margir frá Færeyjum, Grænlandi og Bandaríkjunum. Kaupendurnir komu víðar að helst úr Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum, en þó voru einhverjir sem komu lengra að, sumir alla leið frá Indlandi.
Vestfirðir fengu úrvalsstað á sýningunni við inngang sýningarsalsins í Laugardalshöll. Vestfirðingarnir tóku því á móti öllu gestum sem gengu inn en í framlínunni með Markaðsstofu Vestfjarða voru fyrirtækin Westfjords Adventures, Vesturferðir og Fantastic Fjords sem fræddu fundargesti um Vestfirði og ferðaþjónustu á svæðinu.
Á Mid Atlantic eru fundir skipulagðir og bókaðir fyrir sýningu. Þó svo að einhverjir fundargestir sem við ræddum við hafi þurft ítarlega kynningu á landshlutanum, voru flestir að leita að nýjungum og viðbótum við ferðir sem þeir nú þegar eru með í sölu.
Heimsóknir á ferðasýningar og vinnustofur er mikilvægur þáttur í því að kynna Vestfirði fyrir alþjóðlegum ferðskipuleggjendum. Þetta er eitthvað sem vestfirskum ferðaþjónum stendur til boða í gegnum samstarf við Markaðsstofu Vestfjarða. Hvetjum við ferðaþjóna eindregið til að láta svona tækifæri ekki framhjá sér fara, þar sem oft er efnt til mikilvægra viðskiptasambanda á þessum vettvangi.
Ferðakaupstefnan Mid Atlantic er skipulögð af Icelandair og er haldin annað hvert ár og er gerð til að tengja ferðaskipuleggjendur sem nýta sér flugnet Icelandair.