Fara í efni

Vestfirskar listakonur á heimaslóð

Fréttir

Sigrún Pálmadóttir óperusöngkona og Anna Áslaug Ragnarsdóttir píanóleikari halda tónleika í Hömrum 17 á sunnudag. Á efnisskránni eru norrænir ljóðasöngvar eftir Grieg. Sibelius, Rangström og Stenhammar. Tónleikarnir eru fjórðu og síðustu áskriftartónleikar Tónlistarfélags Ísafjarðar á yfirstandandi starfsári. Áskriftarkort gilda, en einnig verður hægt að kaupa miða við innganginn. Sigrún og Anna Áslaug eru báðar að vestan en hefur vegnað vel í tónlistarbransanum bæði hér heima sem og erlendis.

Sigrún Pálmadóttir er fædd og uppalin í Bolungarvík. Hún hóf söngnám við Tónlistarskólann á Akureyri hjá Hólmfríði Benediktsdóttur og stundaði síðan nám í Söngskólanum í Reykjavík hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og lauk þaðan burtfararprófi árið 1999. Sigrún stundaði nám við óperudeild Tónlistarháskólans í Stuttgart hjá prófessor Dunja Vejzovie og í ljóðadeild sama skóla hjá prófessor Richter frá 1999-2001. Sama ár og hún lauk námi var hún fastráðin við Óperuhúsið í Bonn. Sigrún hefur sótt ýmsa masterklassa, m.a. hjá André Orlowitz, Emmu Kirkby og Anthony Rooley. Hér á landi hefur hún sungið á Vínartónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands og erlendis hefur hún haldið fjölda tónleika, aðallega í Þýskalandi. Sigrún hlaut verðlaun frá styrktarfélagi Óperunnar í Bonn árið 2004 fyrir velunnin störf og framfarir og hélt af því tilefni tónleika með hörpuleikaranum Jane Berthe. Hlutverk hennar á sviði eru orðin fjölmörg og má þar nefna Næturdrottninguna í Töfraflautunni, Frasquitu í Carmen, Norinu í Don Pasquale, Clorindu í Öskubusku, Olympíu í Ævintýrum Hoffmanns, Zerbinettu í Ariadne á Naxos, Víólettu í La traviata, Sophie í Rósariddaranum og í fyrra titilhlutverkið í í óperunnni Luciu di Lammermoor Nýverið söng hún hlutverk Víólettu í La Traviata í Íslensku óperunni.

Anna Áslaug Ragnarsdóttir hóf tónlistarnám sitt við Tónlistarskóla Ísafjarðar og nam síðar við Tónlistarskólann í Reykjavík. Að loknu einleikaraprófi þar fór hún til framhaldsnáms til Bretlands, Ítalíu og Þýskalands. Anna Áslaug hefur komið fram sem píanóleikari í ýmsum löndum Evrópu og Ameríku. Á Íslandi hefur hún oft leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, haldið einleikstónleika víðs vegar um landið. Hún hefur leikið inn á upptökur fyrir Ríkisútvarpið og Sjónvarpið og Íslensk Tónverkamiðstöð hefur gefið út hljómplötu þar sem hún leikur verk íslenskra höfunda. Á síðari árum hefur hún einnig verið meðleikari með ljóðasöng og kammertónlist.

Fréttin er afrituð óbreytt af fréttavefnum www.bb.is.