Starfsfólk Vestfjarðastofu, Guðrún Anna Finnbogadóttir og Magnús Bjarnason, fór á ráðstefnuna Arctic Algea sem haldin var í húsnæði Arion banka dagana 4.-5. september 2025. Vestfjarðastofa hefur á undanförnum árum unnið að kortlagningu innviða á Vestfjörðum auk þess að ýta á stjórnvöld um að hefja vinnu við gerð laga um þörungarækt. Á ráðstefnunni voru kynnt mörg spennandi verkefni á sviði smáþörunga auk þess sem fjallað var um hlutverk þörunga í matvælaframleiðslu sem fer sífellt vaxandi. Þörungar eru góð viðbót í framleiðslu á grænkeraréttum og er þróun nýrra afurða mjög hröð.
Ráðstefnan var vel sótt og komu þar fram fjöldi sérfræðinga á sviði bæði smá- og stórþörunga. Til að mynda var þar áhugavert erindi um upphaf þörungaræktar, sem hófst í Maine fylki í Bandaríkjunum. Humarsjómenn höfðu ekki fulla vinnu allt árið og búið var til viðskiptamódel þar sem þörungarækt styrkti rekstur þeirra og fæli í sér nýtingu skipa og húsakosts sem þegar var til staðar. Samvinnufélagið sem skapað var um þörungareksturinn gerði sjómönnunum kleift að fara í þörungaræktina með miðlun þekkingar og öflun nauðsynlegra efna til ræktunarinnar.
Ráðstefnan var áhugaverð og þar sjónum beint til framtíðar við fæðuframleiðslu heimsins. Í þörungarækt felast mikil tækifæri fyrir Vestfirði vegna kjöraðstæðna sem felast í fjörðunum, næringarríkum sjó, jarðhita og mikilli verkþekkingu tengdri hafinu.
Hér má sjá skjal um tækifæri í þörungarækt sem kynnt var á ráðstefnunni.