Ráðstefnan Lagarlíf var haldin í Reykjavík dagana 28. – 29. október síðastliðinn. Lagarlíf hét áður Strandbúnaður og er helsta ráðstefna landsins um eldi og ræktun í sjó og vatni.
Þrír starfsmenn Vestfjarðastofu voru með innlegg á ráðstefnunni en síðustu ár hefur verið unnið að verkefnum tengdum framtíðarsýn í fiskeldi á Vestfjörðum hjá Vestfjarðastofu sem Áhersluverkefni Sóknaráætlunar Vestfjarða og með stuðningi úr Byggðaáætlun. Áður höfðu bæði Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Fjórðungssamband Vestfjarða látið vinna greiningar og gögn um möguleg áhrif fiskeldis á atvinnulíf og samfélg á Vestfjörðum.
Samfélagsleg áhrif af uppbyggingu fiskeldis hafa lítið verið rannsökuð á landsvísu en Vestfjarðastofa hefur fylgst mjög grant með þróun mála vegna mikilvægis þess að vel takist til við uppbyggingu atvinnugreinarinnar á Vestfjörðum.
Þátttaka í ráðstefnunni hefur þann tilgang að miðla þeim gögnum sem Vestfjarðastofa hefur látið vinna í tengslum við uppbyggingu atvinnugreinarinnar, hafa áhrif á umræðu um fiskeldi og sinna hagsmunagæslu fyrir svæðið allt til að uppbygging atvinnugreinarinnar hafi tilætluð jákvæð áhrif á þróun samfélags og atvinnulífs á svæðinu.
Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu var með erindi í fyrstu málstofu ráðstefnunnar sem bar yfirskriftina „Þróun byggða í tengslum við strandbúnað“. Erindi Sigríðar fjallaði um þau áhrif sem fiskeldið hefur þegar haft á byggð á Vestfjörðum og þau áhrif sem það gæti haft ef rétt væri gefið í tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga vegna gjalda sem ríkið innheimtir af fiskeldisfyrirtækjum á svæðinu.
Fyrirlestur Sigríðar má finna hér.
Erindi Guðrúnar Önnu Finnbogadóttur, verkefnastjóra hjá Vestfjarðastofu bar yfirskriftina „Mýtur og áhrif á umræðu um atvinnuuppbyggingu“ og var á dagskrá í málstofunni Staðleysur og áhrif þeirra á umræður um laxeldi. Í erindinu fór Guðrún Anna yfir nokkur atriði úr viðhorfskönnun sem Vestfjarðastofa lét vinna á Vestfjörðum um viðhorf íbúa á svæðinu til fiskeldis. Guðrún Anna fjallaði einnig um viðhorf starfsmanna í fiskeldi til umræðunnar um atvinnugreinina og tók nokkur dæmi um umfjöllun í innlendum og erlendum miðlum um fiskeldi.
Fyrirlestur Guðrúnar Önnu eru hér.
Aðalsteinn Óskarsson var á dagskrá í málstofu sem bar yfirskriftina Leyfisveitingar til sjókvíaeldis og fjallaði Aðalsteinn um Strandsvæðaskipulag út frá sjónarhóli sveitarfélaga. Aðalsteinn fór yfir forsögu vinnu við Strandsvæðaskipulag, mikilvægi þess fyrir sveitarfélögin, feril strandsvæðaskipulags og aðkomu sveitarfélaga og almennings að vinnunni.