Fara í efni

Vestfjarðastofa þriggja ára

Fréttir

Þann 1. desember 2017 var Vestfjarðastofa formlega stofnuð. Með stofnun Vestfjarðastofu var starfssemi skrifstofu Fjórðungssambands Vestfirðinga og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða sameinuð. Vestfjarðastofa er sjálfseignastofnun sem hefur það hlutverk að styðja einstaklinga, fyrirtæki, félagasamtök og sveitarfélög á Vestfjörðum við að ná árangri á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar. Vestfjarðastofa er í forsvari gagnvart stjórnvöldum, sinnir markaðssetningu og svæðasamstarfi á Vestfjörðum. Jafnframt er Vestfjarðastofu ætlað að samþætta krafta landshlutans, fylgja eftir hagsmunum umhverfis, samfélags og efnahagslífs byggðanna og stuðla þannig að öflugum og sjáfbærum Vestfjörðum.

Í þessari grein er stiklað á stóru um starfsemi Vestfjarðastofu.

Stjórn og starfssemin

Yfir Vestfjarðastofu er níu manna stjórn sem samanstendur af fimm sveitarstjórnarmönnum og fjórum fulltrúum atvinnulífs og menningar. Stjórnarformaður Vestfjarðastofu er Hafdís Gunnarsdóttir.

Starfsemi Vestfjarðastofu byggir á öflugum sérfræðingum sem búa yfir mikilli þekkingu á fjölbreyttum sviðum. Á Vestfjarðastofu starfa nú 12 starfsmenn á fjórum starfsstöðvum. Sjö starfsmenn eru á Ísafirði, einn á Þingeyri, tveir á Patreksfirði og tveir á Hólmavík. Meginstef í störfum allra starfsmanna eru verkefni sem varða alla Vestfirði en einnig koma á borð þeirra sértæk verkefni sem varða einstök sveitarfélög og jafnvel einstaka byggðakjarna innan sveitarfélaga. Þannig vinna starfsmenn að verkefnum brothættra byggða í Dýrafirði, Árneshreppi og Strandabyggð. Vestfjarðastofa styður einnig við þróunarverkefni á Flateyri með stjórnarsetu og utanumhaldi um styrkjasjóð.

Allar starfsstöðvar Vestfjarðastofu eru í samvinnurýmum með öðrum stofnunum og fyrirtækjum. Á Ísafirði er Vestfjarðastofa til húsa á jarðhæð Vestrahússins og nýtur sambýlis við Háskólasetur, Fræðslumiðstöð og fjölmargar stofnanir.  Á Patreksfirði hefur Vestfjarðastofa komið sér fyrir í Ólafshúsi með nokkrum fyrirtækjum og stofnunum og á Hólmavík er Vestfjarðastofa til húsa í Hnyðju með fleiri stofnunum. Starfsstöð Vestfjarðastofu á Þingeyri er í góðu sambýli í Blábankanum.

Atvinnuþróun

Samstarf við frumkvöðla og fyrirtæki er mikilvægur þáttur í starfsemi Vestfjarðastofu. Vestfjarðastofa hefur stutt við stofnun samtaka atvinnurekenda á norðursvæði Vestfjarða og á Ströndum/Reykhólum auk þess að styðja við endurvakningu félags á suðursvæði Vestfjarða. Atvinnusvæðin á Vestfjörðum eru ólík að uppbyggingu og hagsmunamál og áherslur að nokkru leiti ólík þó meginlínur séu auðvitað líkar. Þessi félög eru málssvarar atvinnulífs á svæðunum og þau geta dregið fram þau hagsmunamál fyrirtækja sem mestu máli skipta.

Stuðningur við atvinnuþróun fer að nokkru leiti fram í gegnum verkefni sem Vestfjarðastofa heldur utan um og skapar þannig vettvanga samstarfs fyrir fyrirtæki og í sumum tilfellum sveitarfélög og stofnanir.

Vestfjarðaleiðin er dæmi um verkefni sem hefur haft, og mun hafa víðtæka skírskotun og ýta undir atvinnuþróun og nýsköpun á Vestfjörðum. Það hefur með þróun vestfirskrar ferðaþjónustu að gera til langs tíma. En um hvað snýst vinnan í slíku þróunarverkefni? Vinnan snýst um að móta verkefnið, markmið þess og framvindu. Vinnan snýst um að boða fundi, tala við alla þá sem mögulega hefðu áhuga á þátttöku. Vinnan snýst um að fjármagna verkefnið, finna réttu fagmennina til að vinna einstaka verkþætti. Í tilfelli Vestfjarðaleiðarinnar voru fengnir breskir ráðgjafar til að teikna upp stóru drættina, setja tóninn og fleira, auglýsingastofa var fengin til að vinna merki og kynningarefni og fleira í þeim dúr. Ræða þarf við sveitarfélög, ferðaþjónustuaðila, stofnanir, fyrirtæki um fjölmarga þætti í þróun leiðarinnar. Þannig þarf til dæmis mikið samstarf við Vegagerðina um merkingar á Vestfjarðaleiðinni. Þar eru ófáir fundir, erindi og tölvupóstar.

Vestfjarðastofa hefur stutt við og aðstoðað sjávarútvegsklasann við verkefnið Hafsjó af hugmyndum. Þar var um að ræða hraðal til að ýta undir sjávartengda nýsköpun. Vinna er í gangi þar um mótun fleiri samstarfsverkefna. Það er verkefni sem krafðist samstarfs við grafískan hönnuð um gerð merkis fyrir samkeppnina, farið var um alla Vestfirði og tekin kynningarmyndbönd fyrir öll átta fyrirtækin og afrakstur þess er á vef Vestfjarðastofu.

Vestfjarðastofa er nú að vinna að verkefni sem hefur að markmiði að bæta markaðsstöðu og auka sýnileika vestfirskra matvæla og hefur boðið níu smáframleiðendum að taka þátt í því verkefni. Í verkefninu felst þátttaka í vinnustofu um vestfirska matarmenningu, ljósmyndari kemur til hvers framleiðenda og tekur myndir af afurðum, aðstoð við að "segja söguna" um framleiðsluna og hver og einn framleiðandi fær handleiðslu í stafrænni markaðssetningu með áherslu á samfélagsmiðla.

Auk fjölbreyttra verkefna annast verkefnastjórar Vestfjarðastofu ráðgjöf við frumkvöðla og fyrirtæki. Stuðning við mótun verkefna, gerð viðskiptaáætlana, yfirlestur og aðstoð við umsóknagerð í ýmsa styrkjasjóði og margt fleira.

Hagsmunagæslan

Vestfjarðastofa er í forsvari gagnvart stjórnvöldum og vinnur til dæmis að því að koma á framfæri við stjórnvöld sjónarmiðum varðandi stór hagsmunamál Vestfirðinga til dæmis hvað varðar samgöngumál, raforkumál og atvinnumál.

Þessi stóru hagsmunamál hafa með samkeppnishæfni svæðisins að gera og mikilvægt er að rödd svæðisins heyrist í þessum stóru málum. Á síðustu vikum hefur verið fundað með sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Ferðamála, nýsköpunar og iðnaðarráðherra, umhverfisráðherra, Landsneti, Orkumálastjóra, Orkubúi Vestfjarða og fleiri fundir eru í farvatninu. Auk þessa hefur verið fundað með umhverfis- og samgöngunefnd og fjárlagnefnd Alþingis.

Á þessum fundum er farið yfir helstu hagsmunamál og sjónarmiðum Fjórðungssambands Vestfirðinga sem fram koma í ályktunum sem samþykktar voru á 65. Fjórðungsþingi sem haldið var í fjarfundi dagana 9-10. október sl.

Nýsköpun

Það kann að virðast nokkur mótsögn í því að á því herrans ári 2020 sé töluvert afl í nýsköpun á Vestfjörðum og margir sprotar að líta dagsins ljós.

Í Sóknaráætlun Vestfjarða 2020-2024 er mikil áhersla lögð á nýsköpun og einkum er þar beint sjónum að því að skapa vettvang fyrir nýsköpun með því að ýta undir starfsemi nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðva í sem flestum byggðakjörnum á Vestfjörðum. Í lok ársins 2018 fékk FV/Vestfjarðastofa styrk úr verkefni C1 á Byggðaáætlun til verkefnis sem bar yfirskriftina „Nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar á Vestfjörðum“. Í því verkefni átti að gera greiningu á þörf fyrir slíkar miðstöðvar á Vestfjörðum og hvar slík starfsemi væri þegar til staðar, auk þess sem gert var ráð fyrir að renna styrkari stoðum undir starfandi miðstöðvar.

Vestfjarðastofa hefur stutt við starfandi miðstöðvar og til framtíðar eru fjölbreyttir möguleikar á samstarfi við og eflingu slíkra miðstöðva sem hvetja til fjölbreyttrar starfssemi í nærumhverfi sínu. Sem dæmi má nefna að skapa vettvang til aukins samstarfs milli stöðva, sameiginlegar styrkumsóknir, sameiginleg kynning á möguleikum fyrir svokallaða „digital nomads“ eða stafræna flakkara á því að staðsetja sig á Vestfjörðum, sameiginleg kynning á möguleikum til að flytja störf sín til Vestfjarða o.s.frv.

Miðlun

Áhersla er lögð á öfluga miðlun upplýsinga hjá Vestfjarðastofu. Á vefsíðunni www.vestfirdir.is eru fréttir af starfseminni, yfirlit verkefna og stöðu þeirra og margt fleira. Þar má einnig finna dagbók með því sem er efst á baugi í starfsseminni. Vestfjarðastofa er einnig með virka Facebook síðu. Undir merkjum Visit Westfjords rekur Vestfjarðastofa bæði upplýsingavef fyrir Vestfirska ferðaþjónustu, Facebook síðu og mjög öfluga Instagram síðu auk nokkurra hópa á facebook um afmörkuð málefni.

Til að auka sýnileika Vestfjarða setti Vestfjarðastofa af stað verkefnið #Vestfirðingar til að vekja athygli á mönnum og málefnum á Vestfjörðum. Undir því merki voru sagðar sögur rúmlega 30 Vestfirðinga og þær birtar ásamt mynd á Facebook síðu Vestfjarðastofu.  Á árinu 2019 gaf Vestfjarðastofa út staðreyndaskjöl um fiskeldi og raforkumál og núna haustið 2020 hefur Vestfjarðastofa verið í samstarfi við sjónvarpsstöðina N4 um þáttagerð um atvinnu- og mannlíf á Vestfjörðum.  

Viðspyrnan og framtíðin

Yfirstandandi heimsfaraldur hefur breytt því hvernig við á Vestfjarðastofu vinnum. Við höfum unnið enn meira í fjarfundi og í raun hefur það bæði kosti og galla. Við náum til fleiri og getum fundað tíðar en náum ekki að hitta jafn marga í „raunheimum“. Samstarf innan Vestfjarða er auðveldara þar sem fólk hefur vanist fjarfundaforminu. Samstarf við nefndir Alþingis og ráðuneyti er einnig mjög skilvirkt í fjarfundaforminu. Við höfum þurft að breyta starfsaðferðum og finna nýjar lausnir til að ná að vinna verkefnin okkar.

Framundan eru miklar fjárfestingar hins opinbera í langþráða uppbyggingu samgönguinnviða á svæðinu sem barist hefur verið fyrir svo áratugum skiptir. Á síðustu árum hafa verið gríðarlegar fjárfestingar á svæðinu í uppbyggingu hinnar nýju atvinnugreinar, fiskeldis. Fyrirsjáanlegt er að svo verður áfram.

Þegar erum við að sjá ný fyrirtæki sem hyggjast fullvinna eldisfisk og vinna úr hliðarafurðum hans. Við erum einnig að sjá þjónustufyrirtæki við þessa atvinnugrein byggjast upp.

Vestfjarðastofa í samstarfi við Landsvirkjun og Orkubú Vestfjarða að setja af stað nýtt verkefni á sviði grænnar nýsköpunar á Vestfjörðum með áherslu á orkuskipti, hringrásarhagkerfið og tækifæri í nýsköpun á svæðinu. Gert er ráð fyrir að verkefnið verði vettvangur til samstarfs milli fyrirtækja og sveitarfélaga í átt að grænna hagkerfi og undirbúa jarðveg fyrir öflug sprotafyrirtæki sem byggja á tækifærum svæðisins m.a. í orkuskiptum og bættri nýtingu í sjávarútvegi, fiskeldi og iðnaði. Í verkefninu verða leidd saman fyrirtæki, sprotar og sveitarfélög til að vinna saman að ákveðnum markmiðum sem miða að aukinni verðmætasköpun og aukinni samkeppnishæfni. Horft verður til heildstæðra lausna sem nýtast fyrirtækjum og íbúum í átt að aukinni sjálfbærni

Miklu máli skiptir því að hægt verði að styðja við þá sprota sem eru að verða til, að hægt verði að byggja á þeirri fjárfestingu í innviðum og byggja ný fyrirtæki ofan á frumframleiðsluna. Fyrirtæki sem byggja á þekkingu, sköpun og tækni. Til þess þarf öflugan stuðning og markvisst starf.

Þær framfarir og fjárfestingar sem framundan eru á Vestfjörðum munu skipta miklu máli í viðspyrnu Íslands eftir heimsfaraldur.  Þá skiptir mestu máli að tryggja að grunngerð og innviðir svæðisins séu samkeppnishæfir. Á Vestfjarðastofu vinnur fólk sem saman myndar breiðan hóp þekkingar og reynslu sem miðlað er með virkum hætti eins og sjá má á því sem hér hefur verið ritað. Í starfi Vestfjarðastofu framundan skiptir miklu máli að geta boðið sveitarfélögum, frumkvöðlum og fyrirtækjum á Vestfjörðum faglega þjónustu með áherslu á nýsköpun og þróun.