Fara í efni

Viðburðir á Barnamenningarhátíð á Vestfjörðum

Fréttir

Barnamenningarhátíð á Vestfjörðum verður haldin í fyrsta sinn dagana 11.-22. september n.k. Slíkar hátíðir hafa verið haldnar með góðum árangri víða um land og standa vonir okkar til að þessi hátíð nái að festa sig í sessi í fjórðungnum með aukinni þátttöku barna í lista- og menningarlífi, auk þess sem hún veiti grundvöll fyrir þau að skapa sína eigin viðburði. Hátíðin verður til með þátttöku skóla, stofnana, listafólks og barnanna á svæðinu.

Á vormánuðum fékk Vestfjarðastofa styrk frá Barnamenningarsjóði til að halda þessa fyrstu hátíð og er verkefnastjóri Skúli Gautason. Þessa dagana er unnið hörðum höndum að því að móta dagskrána og köllum við eftir dagskrárliðum frá vestfirsku listafólki og menningarvitum. Bæði er hægt að bjóða upp á viðburði á einstökum stöðum innan fjórðungsins, en einnig er hægt að bjóða upp á viðburði víðsvegar um hann. Viðburðirnir þurfa að snúa að menningu barna, menningu fyrir börn eða menningu með börnum og er miðað við börn á grunnskólaaldri. Þema hátíðarinnar í ár er sögur og má vinna vítt með það þema og eru allar miðlunarleiðir velkomnar.

Það sem þarf að koma fram er lýsing á viðburði, fyrir hvaða aldur hann er ætlaður, tímalengd, staðsetning (má vera hugmynd um staðsetningu ef hún liggur ekki fyrir), hvaða tækni/efniviður þarf að vera til staðar og kostnaður. Greitt er fyrir vinnu, ferða- og efniskostnað eftir samkomulagi.

Skúli tekur glaður á móti tillögum, fullmótuðum hugmyndum og öðrum vangaveltum á skuli@vestfirdir.is