Fara í efni

Villi Valli tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna

Fréttir

„Nei ég reikna nú ekki með því. Ætli ég láti ekki Viðar Hákon, barnabarn mitt, mæta fyrir mig," segir Villi Valli, tónlistarmaður á Ísafirði, aðspurður hvort hann hugsi sér að mæta til Íslensku tónlistarverðlaunanna en plata hans Í tímans rás er tilnefnd í flokki djass-tónlistar. Villi Valli hefur ekki miklar áhyggjur af því að vinna þegar hann er spurður hvort honum þætti ekki skemmtilegra að taka við verðlaununum. „Ég er í rauninni mjög hissa á því að vera tilnefndur. Maður fer nú ekki að gera sér ferð suður fyrir þetta," segir hann. Aðspurður hvort hann líti ekki á tilnefninguna sem viðurkenningu fyrir vel unnin störf svarar hann því játandi. „Þetta kitlar hégómagirndina eins og sagt er," segir Villi Valli.

Hann segist ekki vera farinn að huga á frekari útgáfu og hann segist ekki hafa áhyggjur af því að missa af því að halda ræðu, ef hann vinnur því, hann sé ekki mikill ræðumaður. Plata Villa Valla er tilnefnd ásamt tveimur öðrum plötum þeirra Ómars Guðjónssonar, fyrir Fram, og Sigurðs Flosasonar, fyrir Blátt ljós. Íslensku tónlistarverðlaunin verða afhent í janúar.

Fréttin er afrituð af www.bb.is.