- Að sinna árið 2019 beinni erlendri markaðssetningu á vestfirskri ferðaþjónustu, með vinnustofum, kynningum, blaðamanna-ferðum og samfélagsmiðlum.
- Að markaðssetja Vestfirði með áherslu á axlartímabilin (apríl-maí og sept.-nóv)
- Að lengja ferðamannatímabilið og vinna gegn þeirri þróun sem er að eiga sér stað með styttri ferðalögum ferðamanna
Verkefnalýsing
Verkefnið snýr að almennri markaðssetningu Vestfjarða sem áfangastað ferðamanna. Verkefninu er skipt niður í fimm þætti:
1. Samfélagsmiðlar og vefur
2. Blaðamannaferðir
3. FAM ferð
4. Sýningar/vinnustofur
5. Beinar auglýsingar
Tengsl við Sóknaráætlun 2015-2019
Í sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 er lögð áhersla á uppbyggingu atvinnugreina sem mikilvægar eru sem ákveðið mótvægi við því einhæfa atvinnulífi sem nú er á Vestfjörðum. Þrátt fyrir að ferðaþjónusta sé ört vaxandi grein, er hún enn viðkvæm og samansett úr mjög smáum fyrirtækjum. Það er því mikilvægt að styðja vel við áframhaldandi vöxt atvinnugreinarinnar ef hún á að koma inn sem sterk stoð í vestfirskt atvinnulíf.
Lokaafurð
Heilsteypt markaðsvinna fyrir Markaðsstofu Vestfjarða sem horfir til þeirra áhersluþátta sem settir hafa verið t.d með tilliti til lengingar ferðamannatímabilsins og dreifingar ferðamanna innan svæðisins.
Framkvæmdaraðili : Vestfjarðastofa
Verkefnisstjóri - Díana Jóhannsdóttir
Tímarammi - janúar - desember 2019
Framlag úr Sóknaráætlun 2019 - Kr. 7.200.000-
Núverandi staða verkefnis:
Haldið var áfram með verkefnið en það var einnig áhersluverkefni árið 2018. Áfram var lögð áhersla á móttöku blaðamanna, uppbyggingu heimasíðunnar, samfélagmiðla og þátttöku á sýningum en jafnframt var með auknu fjármagni hægt að setja upp kynningaferðir fyrir ferðaskrifstofur en töluverð eftirspurn hefur verið eftir slíkum ferðum en ekki hefur verið hægt að sinna þeim vegna takmarkaðs fjármagns.
Verkefni lokið
- Þróun ferðamannaleiðarinnar Hringvegur 2 með að markmiði að bjóða upp á gott mótvægi við hinum fjölfarna hringveg nr. 1.
- Að skapa nýtt aðdráttarafl fyrir Vestfirði sem byggir á upplifun og afþreyingu.
- Að styðja við lengingu ferðamannatímabilsins og auka arðbærni ferðaþjónustunnar á svæðinu.
Verkefnalýsing
Verkefnið tekur til þróunar, undirbúnings og opnunar ferðamannaleiðarinnar Hringvegs 2 á Vestfjörðum. Horft er til að þegar Hringvegur 2 verði farinn verið hægt að stoppa, njóta ferðarinnar og upplifa Vestfirði. Er þetta verkefni hugsað til þriggja ára og er fyrsti þáttur verkefnis styrktur að þessu sinni.
Tengsl við Sóknaráætlun 2015-2019
Í sóknaráætlun Vestfjarða 2015-2019 er lögð áhersla á uppbyggingu atvinnugreina sem mikilvægar eru sem ákveðið mótvægi við því einhæfa atvinnulífi sem nú er á Vestfjörðum. Þrátt fyrir að ferðaþjónusta sé ört vaxandi grein, er hún enn viðkvæm og samansett úr mjög smáum fyrirtækjum. Það er því mikilvægt að styðja vel við áframhaldandi vöxt atvinnugreinarinnar ef hún á að koma inn sem sterk stoð í vestfirskt atvinnulíf.
Lokaafurð - Skilgreining á á ferðamannaleiðinni og greining á þeirri upplifun sem tengist ferðalagi um Hringveg 2.
Framkvæmdaraðili: Vestfjarðastofa
Verkefnisstjóri - Magnea Garðarsdóttir
Tímarammi - janúar - desember 2019
Framlag úr Sóknaráætlun 2019 - Kr. 4.000.000-
Núverandi staða:
Verkefnið er áhersluverkefni til þriggja ára og var fyrsta áfanga lokið 2019. Verkefnið 2019 fólst í því að skilgreina ferðamannleiðina Hringveg 2. Leiðin fékk nafnið Vestfjarðaleiðin og var gerð greining á þeirri upplifun sem tengist ferðalaginu um veginn. Hérna er hægt að finna kort af Vestfjarðaleiðinni. Síða Vestfjarðaleiðarinnar er hér
Verkefni lokið
Umhverfisvottaðir Vestfirðir
Markmið
- Að viðhalda vottun sem sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa fengið síðustu ár.
- Að leita leiða til að innleiða vinnulag sem hjálpar sveitarfélögunum að uppfylla þau skilyrði sem m.a. hafa verið sett með loftlagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar
- Að kynna leiðir til fyrir sveitarfélögum og almenningi sem stuðla að því að Ísland getir náð þeim loftslagsmarkmiðum sem ríkisstjórnin hefur sett.
- Að auka sýnileika verkefnisins
Verkefnislýsing
Verkefnið gengur út á að viðhalda vottun sem sveitarfélögin hafa fengið og auka verkefni sem lúta að umhverfisvitund. Verkefni vinnur í því að leita leiða til að innleiða vinnulag sem hjálpar sveitarfélögunum að uppfylla þau skilyrði sem m.a. hafa verið sett með loftlagsmarkmiðum ríkisstjórnarinnar og koma í veg fyrir rýrnun á náttúrulegum og félagslegum auðlindum, og hvetja einstaklinga til að fylgja góðu fordæmi og bæta umgengni sína í anda sjálfbærrar þróunar.
Tengsl við Sóknaráætlun 2015-2019
Efling og aukin fjölbreytni atvinnulífs. Fyrirtæki sem eru í matvælaiðnaði og ferðaþjónustu, leggja í auknu mæli áherslu á umhverfisvottun sinnar starfsemi. Þau kalla eftir stefnu samfélaganna í þeim sömu efnum og umhverfisvottun sveitarfélaga er ákveðið svar við því. Skapa jákvæða ímynd af Vestfjörðum. Vinna að umhverfisvakningu með sjálfbærni að leiðarljósi
Lokaafurð
Áframhaldandi vottun sveitarfélaganna á Vestfjörðum fyrir starfsárið 2018. Verkefnið mun fá meiri umfjöllun og umfjöllun um umhverfismál eykst. Almenn fræðsla til bæði íbúa og sveitarfélaga eykst.
Framkvæmdaraðili: Vestfjarðastofa
Verkefnisstjóri - Lína Björg Tryggvadóttir
Tímarammi - janúar - desember 2019
Framlag úr Sóknaráætlun 2019- Kr.4.000.000-
Núverandi staða
Verkefni fyrir árið 2019 var lokið með sýningu Umhverfislestar sem sett var upp á þremur stöðum á Vestfjörðum, Hólmavík, Patreksfirði og Ísafirði . Sýningin tók á ýmsum umhverfismálum og sýndi hvernig má innleiða vinnulag á heimilum og í fyrirtækjum til að bæta umgengni í anda sjálfbærrar þróunar. Vottunaraðili kom til Vestfjarða í desember og tók út vinnu sveitarfélaga og fékkst áframhaldandi vottun með nokkrum athugasemdum sem þurfti að lagfæra og var farið strax í að laga sem hægt var að gera með stuttum fyrirvara. Annað mun fara á verkefni ársins 2020 og þarf að vera komið i lag fyrir næstu úttekt. Hægt er að finna úttektarskýrslu vottunaraðila fyrir starfsárið 2018 hér
Verkefni lokið
Lýðskólinn á Flateyri
Markmið
- Að skapa nýjan valkost í íslensku menntakerfi fyrir fólk sem hefur ekki fundið sig í hinu hefðbundna skólakerfi.
Verkefnislýsing:
Stutt við uppbyggingu Lýðskólanns á Flateyri með því að leggja fjármagn til svo að hægt sé að byggja upp nýjan valkost í íslensku menntakerfi fyrir fólk sem hefur ekki fundið sig í hinu hefðbundna skólakerfi. Skólinn hefur mikið samfélagslegt og menningarleg áhrif á Flateyri og nágranna þorp, bæði vegna nemenda og kennarar sem verða á svæðinu.
Tengsl við sóknaráætlun 2015-2019
Verkefni sem lýtur að því að auðga mannlíf, menningu og menntun á svæðinu og vera samfélagslega jákvætt fyrir svæðið í heild.
Lokaafurð
Nýr valkostur í menntakerfinu og starfandi skóli á Flateyri
Framkvæmdaraðili: Lýðskólinn á Flateyri - Ingibjörg Guðmundsdóttir
Tímarammi - janúar - desember 2019
Framlag úr Sóknaráætlun 2019 - Kr.4.000.000-
Núverandi staða
Í september 2019 hófu 29 nemendur nám við skólann. Tveir nýir starfsmenn voru ráðnir til skólans í fast starf og fluttu þeir með fjölskyldu til Flateyrar. Íbúafjöldi þorpsins jókst því um 34 ásamt því að um 30 kennarar komu alstaðar að af landinu sem dvöldu um tíma á Flateyri, eina til tvær vikur í senn.
Nemendur skólans, kennarar og starfsfólk stóðu fyrir ýmsum viðburðum fyrir íbúa Flateyrar á þessu fyrsta skólaári sem var vel sótt af heimamönnum, sem svo aftur buðu nemendum, kennurum og starfsfólki velkomið á ýmsa fasta viðburði sem íbúar standa fyrir.
Eftir fyrsta skólaárið er það staðreynd að þrír nemendur hafa sest að á Flateyri og tveir á Ísafirði til langframa. Nokkrir nemendur hafa hug á að flytja til Flateyrar ef vinna við hæfi býðst, en þeir eru í virkri atvinnuleit á svæðinu
Verkefni lokið
Matarkistan Vestfirðir
Markmið
- Að styðja við litla matvælaframleiðendur (núverandi og tilvonandi) til þess að vinna að virðisaukningu þeirrar hrávöru sem þeir framleiða heima í héraði.
Verkefnalýsing
Verkefnið gengur út á að bjóða upp á nám sem eykur þekkingu og færni, ýtir undir samvinnu og skapar tengsl á milli aðila sem hafa í hyggju að fara í framleiðslu matvæla á svæðinu.
Tengsl við sóknaráætlun 2015-2019
Auka samvinnu á milli sveitarfélaga í sem flestum málefnum. Auka þjónustuframboð á Vestfjörðum, skapa jákvæða ímynd af Vestfjörðum. Hækka menntunarstig á Vestfjörðum með eflingu framboðs og aðgengi að menntun í heimabyggð. Auka fjölbreytileika starfa á svæðinu með áherslu á nýsköpun og frumkvöðla. Vinna að umhverfisvakningu með sjálfbærni að leiðarljósi.
Lokaafurð
Ný námsbraut í boði á Vestfjörðum
Framkvæmdaraðili
Fræðslumiðstöð Vestfjarða - Sólveig Bessa Magnúsdóttir
Tímarammi - janúar - desember 2019
Framlag út Sóknaráætlun 2019- Kr.3.175.000
Núverandi staða
Farið var í kynningu á námsleiðinni á vormánuðum 2019 og hófust skráningar í ágúst. Tuttugu manns skráðu sig í námið sem kom víðsvegar frá Vestfjörðum. Um 1/3 hluti námsins var kenndur frá sept. til nóv 2019 en 2/3 hlutar kenndir í janúar til mars 2020.
Á umsóknar og framkvæmdarstigi var ákveðið að kenna eftir námsskrá Fræðslumiðstöðvar Atvinnulífsins, Matarsmiðju sem er 80 klukkustunda löng námsleið. Leitað var til Farskólans á Norðurlandi vestra með ráð en matarsmiðja hefur verið kennd þar tvisvar sinnum.
Ákveðið var að fyrirkomulag námsins yrði þannig að mest allt námið færi fram í fjarkennslu í gegnum ZOOM fjarfundakerfi en auk þess yrði eitt dagslangt ostagerðarnámskeið á þremur stöðum á Vestfjörðum auk þriggja daga lotu á Skagaströnd í vinnslueldhúsinu Biopol.
Í ágúst hófst skráning í námið, þá var stundaskrá tilbúin og búið að ráða kennara sem að mestu voru þeir sömu og kenndu við matarsmiðjurnar hjá Farskólanum.
Kennsla hófst samkvæmt stundaskrá 30. október, kennt var tvisvar í viku, mánudaga og miðvikudaga kl. 16:00-18:00. Fyrirlestrar voru teknir upp og voru aðgengilegir eftir kennslu.
Engar áætlanir eru hjá Fræðslumiðstöð Vestfjarða um framhald þessa ákveðna verkefnis eftir að kennslu lauk 8. mars 2020 en gera má ráð fyrir að hópurinn sem er í náminu haldi tengslum og er nú kominn með grundvöll fyrir áframhaldandandi samstarf. Auk þess er Fræðslumiðstöð Vestfjarða komin með reynslu af að kenna þessa námsleið og er nú vel í stakk búin að fara aftur af stað með sama nám ef eftirspurn skapast.
Verkefninu lauk um leið og námskeiðið þann 8. mars 2020.
Verkefni lokið
Smávirkjanir
Markmið
- Að greina hvort að þörf sé á smávirkjanasjóði á Vestfjörðum
Verkefnalýsing
Verkefnið gengur út á að fá verkfræðistofu til að vinna greiningu á því hvort að þörf sé á að stofna smávirkjanasjóð á Vestfjörðum. Sjóðnum væri ætlað að styrkja fyrstu skrefin í rannsóknum og auka möguleika á litlum virkjunum á Vestfjörðum.
Tengsl við sóknaráætlun 2015-2019
Skapa jákvæða ímynd af Vestfjörðum. Vinna að umhverfisvakningu með sjálfbærni að leiðarljósi. Auka fjölbreytileika starfa á svæðinu með áherslu á nýsköpun og frumkvöðla.
Lokaafurð
Útkomu skýrslunnar verður svo hægt að nota m.a. til að meta hvaða virkjanakostir á Vestfjörðum séu líkast til hagkvæmastir .
Framkvæmdaraðili
Verkfræðistofa - Vestfjarðastofa
Tímarammi - febrúar - mars 2020
Framlag úr Sóknaráætlun 2019- Kr. 2.000.000
Núverandi staða
Verkefnið gekk út á að greina hvort að þörf sé á smávirkjanasjóði á Vestfjörðum. Verkfræðistofan Verkís var fengin til að vinna greiningu á því hvort að þörf sé á að stofna smávirkjanasjóð á Vestfjörðum. Sjóðnum væri ætlað að styrkja fyrstu skrefin í rannsóknum og auka möguleika á litlum virkjunum á Vestfjörðum. Skýrslan kom út 7. apríl 2020 og er að finna á vef Vestfjarðastofu
Skýrslan kom út 7. apríl 2020. Hægt er að finna hana hér.
Verkefni lokið
Þverfaglega rannsóknarteymið
Markmið
- Að stofna óhlutdrægt, þverfaglegt og rannsókna- og vísindateymi undir heitinu “Þverfaglega vestfirska rannsóknateymið” (ÞVRT) á árinu 2019.
Verkefnalýsing
Megintilgangur verkefnisins er að geta veitt fjármögnun til að styðja uppbygginu á óhlutdrægum, þverfaglegum vísindarannsóknum á Vestfjörðum. Verkefni er framhald á verkefni sem stutt var árið 2017.
Tengsl við sóknaráætlun 2015-2019
Nýsköpun og atvinnuþróun, bætt ímynd Vestfjarða, uppbygging mannauðs í menntamálum og nýting/virkjun hugsanlegra samlegðaráhrifa
Lokaafurð
Megintilgangur verkefnisins var að styðja uppbygginu á óhlutdrægum, þverfaglegum vísindarannsóknum á Vestfjörðum. Verkefni er framhald á verkefni sem stutt var árið 2017.
Framkvæmdaraðili
Háskólasetur Vestfjarða
Tímarammi - 2019
Framlag úr Sóknaráætlun 2019- Kr. 2.200.000
Núverandi staða
Haldin var ráðstefna þar sem mikill fjöldi gesta kom og rætt var um áherslur og samstarfsmöguleika rannsóknarumhverfisins á Vestfjörðum. Eftir þessa vinnu er komin saman hópur á Vestfjörðum sem er með þverfaglega reynslu og vísindaþekkingu sem vinnur saman þegar þörf er á og heldur skipulega fundi til að halda tengslum og þekkingu á svæðinu.
Verkefni lokið
Nýtt meistaranám í Sjávarbyggðafræðum
Markmið
- Að efla og auka framboð framhaldsnáms á háskólastigi á Vestfjörðum.
- Nýtt meistaranám í Sjávarbyggðafræðum.
Verkefnislýsing
Stofna nýja námsleið á meistarastigi hjá Háskólasetri Vestfjarða. Námsleiðin er að öllu leyti hugsuð hliðstæð við núverandi námsleið í Strandsvæðastjórnun, til að nýta samlegð.
Tengsl við sóknaráætlun 2015-2019
Menntamál, nýsköpun og atvinnuþróun, bætt ímynd Vestfjarða, uppbygging mannauðs í menntamálum og nýting/virkjun samlegðaráhrifa.
Lokaafurð
Ný námsleið á Vestfjörðum og aukinn sýnileiki.
Framkvæmdaraðili
Háskólasetur Vestfjarða
Tímarammi - 2019
Framlag úr Sóknaráætlun 2019- Kr. 5.000.000
Núverandi staða
Byrjað var að kenna námsleiðina í ágúst 2019 og var ráðinn fagstjóri til að stýra námsleiðinni. Námið byggir einkum á inntaki og aðferðum félagsfræði, hagfræði og mannvistarlandafræði og skipulagsfræði. Að námi loknu hafa nemendur öðlast skilning á möguleikum og takmörkunum þróunar byggða við Norður Atlantshaf og tamið sér aðferðir til að sjá fyrir og stýra þróun þeirra. Níu nemendur skráðu sig í Sjávarbyggðarfræði árið 2019 en von er á að fleiri skrái sig inn í námsleiðina að hausti 2020.
Verkefni lokið
Markmið
- Að koma með heildstæða stefnu byggða á þekkingu, vísindalegum upplýsingum og reynslu sem hefur áunnist í fiskeldi á Vestfjörðum.
- Að unnið verði þverfaglegt stefnumótunarskjal með aðkomu fagaðila úr fiskeldi sem og sérfræðingum á þeim sviðum sem tengjast atvinnugreininni.
Verkefnislýsing
Að setja fram heilstæða stefnu byggða á þekkingu, vísindalegum upplýsingum og reynslu sem hefur áunnist í fiskeldi á Vestfjörðum til þess að leggja fram við stjórnvöld á Íslandi. Framkvæmdin hugsuð sem þverfagleg stefnumótunarskjal með aðkomu fagaðila úr fiskeldi sem og sérfræðinga á öllum þeim sviðum sem tengjast atvinnugreininni í líkingu við þær stefnumótunarskýrslur sem unnar hafa verið af Sintef í Noregi.
Tengsl við sóknaráætlun 2015-2019:
Auka samvinnu á milli sveitarfélaga í sem flestum málefnum. Auka þjónustuframboð á Vestfjörðum, Skapa jákvæða ímynd af Vestfjörðum. Hækka menntunarstig á Vestfjörðum með eflingu framboðs og aðgengi að menntun í heimabyggð. Auka fjölbreytileika starfa á svæðinu með áherslu á nýsköpun og frumkvöðla. Verkefni sem lýtur að því að auðga mannlífi, menningu og menntun á svæðinu.
Lokaafurð:
Heildstæð stefna í fiskeldi á Vestfjörðum sem byggir á þekkingu, vísindalegum upplýsingum og reynslu sem hægt verður að leggja fram fyrir stjórnvöld á Íslandi.
Framkvæmdaraðili: Vestfjarðastofa
Tímarammi- ágúst 2019- ágúst 2020
Framlag úr Sóknaráætlun 2019 - Kr. 5.000.000
Núverandi staða verkefnis
Vinnu við verkefnið hefur seinkað þar sem á árinu 2019 fór mikill tími og vinna í hagsmunabaráttu vegna lagasetningar um fiskeldi. Ákveðið var að hinkra með upphaf verkefnisins þar til nýtt áhættumat erfðablöndunar yrði birt. Enn er beðið eftir því en vinna við verkefnið er hafin og þessa dagana er verið að setja upp faghóp/stýrihóp til að vinna að útfærslu verkefnisins. Einnig hefur verið unnið að því að virkja/endurvekja/setja upp fiskeldisklasa.
Verkefni í vinnslu