Um kosninguna
Frambjóðendur í stjórn Sóknarhóps Vestfjarðastofu eru kynntir hér að neðan. Kosning verður rafræn og fer fram 2.–7. maí 2025. Kosningahlekkur verður sendur á það netfang sem fyrirtækið hefur skráð hjá Vestfjarðastofu.
Við hvetjum fyrirtæki til að ganga úr skugga um að rétt netfang sé skráð, breytingar á netföngum má skila í gegnum þetta eyðublað.
Hvert fyrirtæki hefur rétt til eins atkvæðis og aðeins eitt framboð er leyfilegt á hvert fyrirtæki.
Atvinnu- og byggðaþróun
Gauti Geirsson
Fyrirtæki: Háafell
Starfstitill: Framkvæmdastjóri
Lesa meira
Hvers vegna býður þú þig fram í stjórn Sóknarhóps?
Hef verið nú verið formaður í tvö ár frá stofnun Sóknarhópsins í stjórn og vil notfæra mér þá reynslu til að þróa starfið áfram í Sóknarhópnum.
Skemmtileg staðreynd um mig:
Kann ekki að flauta.
Guðmundur Fertram Sigurjónsson
Fyrirtæki: Innviðafélag Vestfjarða
Starfstitill: Formaður
Lesa meira
Hvers vegna býður þú þig fram í stjórn Sóknarhóps?
Sóknarhópur Vestfjarða er mikilvægur vettvangur til stefnumótunar fyrir fjórðunginn og mikilvægt að vandað sé til verka. Með því að bjóða mig fram í stjórn býð ég fram krafta mína og reynslu til þeirra verka. Ég hef gríðarlega mikinn áhuga á málefnum fjórðungsins, tel að nú sé rétti tíminn til að sækja fram af krafti og hugsa stórt.
Skemmtileg staðreynd um mig:
Ég hef búið í fjórum heimsálfum en Vestfirðir eru hið eina sanna heim fyrir mér.
Halldór Halldórsson
Fyrirtæki: Íslenska kalkþörungafélagið ehf.
Starfstitill: Forstjóri
Lesa Meira
Hvers vegna býður þú þig fram í stjórn Sóknarhóps?
Áhugi á öllu sem getur styrkt vestfirskt atvinnulíf og þar með Vestfirði. Ég var í fyrstu stjórn Sóknarhópsins, er í varastjórn núna og gef kost á mínum starfskröftum. Þetta er gefandi starf með góðu fólki.
Skemmtileg staðreynd um mig:
Ég er fæddur í Kálfavík í Skötufirði og ólst upp í Ögri. Man eftir því þegar vegur opnaðist þaðan og til Ísafjarðar. Þá fækkaði ferðum með Fagranesinu til Ísafjarðar og allt varð auðveldara. Ég hef stofnað og rekið nokkur fyrirtæki, var lengi í sveitarstjórnarmálum, m.a. 12 ár bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar svo eitthvað sé nefnt. Nú erum við að hefja byggingu kalkþörungaverksmiðju í Súðavík með tilheyrandi umsvifum.
Jónas Heiðar Birgisson
Fyrirtæki: Arnarlax ehf.
Starfstitill: Fjármálastjóri
Lesa meira
Hvers vegna býður þú þig fram í stjórn Sóknarhóps?
Sat í stjórn sóknarhóps 2023-2024 og hef áhuga á að halda áfram því starfi. Ég tel mikilvægt að fyrirtæki eins og Arnarlax sé með fulltrúa í stjórn sóknarhóps.
Skemmtileg staðreynd um mig:
Hef starfað hjá Arnarlaxi í rúm 8 ár. Ég er með bakgrunn úr áliðnaðinum þar sem ég tók þátt í ýmsum stærri verkefnum, s.s. uppbyggingu álvers í Helguvík, endurbyggingu skautverksmiðju í Hollandi og könnun á námuvinnslu á Jamaíka.
Lilja Sigurðardóttir
Fyrirtæki: Oddi hf.
Starfstitill: Skrifstofustjóri
Lesa meira
Hvers vegna býður þú þig fram í stjórn Sóknarhóps?
Ég hef verið í stjórn Sóknarhóps Vestfjarðastofu fyrir hönd atvinnulífs síðasta árið og hef lært ótrúlega mikið á þessum stutta tíma, ásamt því að kynnast fullt af frábæru fólki. Að mínu mati er eitt ár í stjórn ekki nóg, maður er rétt að ná að komast inn í öll mál þegar það eru aftur kosningar. Ég er því mjög sammála breyttu fyrirkomulagi um að kjósa stjórn til 2ja ára í senn og vill endilega fá tækifæri til að spreyta mig áfram. Ég hef mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur og hef m.a. verið varaþingmaður, formaður Slysavarnadeildarinnar Unnar, Héraðssambandsins Hrafna-Flóka, og er nú formaður Foreldrafélags Patreksskóla, ásamt því að hafa setið í stjórn Byggðastofnunar, í skólanefnd slysavarnaskóla sjómanna og svo mætti lengi telja.
Skemmtileg staðreynd um mig:
Ég var tæp 6 kg þegar ég fæddist, eða tæpar 23 merkur! Við systkinin fórum alltaf stækkandi, elsti var 20 merkur, næsta 21 mörk (og 60 cm), þriðji 22 merkur og svo ég, en þá sagði læknirinn stopp. Það er sannkallað vestfirskt víkingablóð í mínum æðum.
Ferðaþjónusta og menning – Markaðsstofa Vestfjarða
Anna Björg Þórarinsdóttir
Fyrirtæki: Strandagaldur ses
Starfstitill: Framkvæmdastjóri
Lesa meira
Hvers vegna býður þú þig fram í stjórn Sóknarhóps?
Því mér er umhugað um samfélagið á Vestfjörðum og legg mitt fram í þau verkefni sem ég tel hafa jákvæð áhrif og efla mannlíf á Vestfjörðum.
Skemmtileg staðreynd um mig:
Ég var tekin inn sem formaður Kvenfélagsins Snótar á fyrsta fundi sem ég mætti. Sit í stjórn Leikfélags Hólmavíkur og lista- og menningarfélagsins Arnkötlu sem stendur á bak við skipulagningu Galdrafárs.
Elísabet Gunnarsdóttir
Fyrirtæki: kol & salt ehf – ArtsIceland – Gallerí Úthverfa
Starfstitill: Verkstjóri
Lesa meira
Hvers vegna býður þú þig fram í stjórn Sóknarhóps?
Í vinnu minni með Sóknarhópnum hef ég öðlast skilning á mikilvægi þess að atvinnulíf og íbúar vinni vel saman. Það þarf að hlú að því besta sem við eigum og þróa verkefnin áfram í sátt við mannlíf og náttúru. Atvinna er forsenda búsetu ásamt líminu í samfélaginu sem er menningin.
Skemmtileg staðreynd um mig:
Oft þegar mig vantar gleði og orku dansa ég við calypso-tónlist frá Trinidad og Tobago.
Rebekka Eiríksdóttir
Fyrirtæki: Báta og Hunnindasýningin á Reykhólum
Starfstitill: Bóndi
Lesa meira
Hvers vegna býður þú þig fram í stjórn Sóknarhóps?
Til að leggja mitt af mörkum til að efla Vestfirði. Er framkvæmdarstjóri Báta- og hlunnindasýningarinnar á Reykhólum og vil koma með mín sjónarmið í starf Sóknarhópsins.
Skemmtileg staðreynd um mig:
Er vestfirðingur í húð og hár og hef aldrei flutt lögheimilið mitt í 49 ár og læt ekkert stoppa mig.
Sif Huld Albertsdóttir
Fyrirtæki: Dokkan Brugghús
Starfstitill: Markaðsstjóri
Lesa meira
Hvers vegna býður þú þig fram í stjórn Sóknarhóps?
Ég býð mig fram í stjórn Sóknarhópsins vegna þess að ég tel mig hafa sterka tengingu við samfélögin á Vestfjörðum og brenn fyrir málefnum svæðisins. Ég hef setið sem áheyrnarfulltrúi/varamaður í stjórninni síðastliðið ár og tel mig tilbúna að taka virkara hlutverk með því að bjóða mig fram til stjórnarsetu. Ég sækist sérstaklega eftir því að starfa innan ferðaþjónustu og menningarmála, þar sem ég sé mikla möguleika til vaxtar og eflingar í þágu íbúa og atvinnulífs.
Skemmtileg staðreynd um mig:
Ég er svo matsár að fólk sem þekkir mig veit að það fær ekki að smakka af mínum disk fyrr en ég er orðin södd.
Sædís Ólöf Þórsdóttir
Fyrirtæki: Fantastic Fjords
Starfstitill: Framkvæmdastjóri
Lesa meira
Hvers vegna býður þú þig fram í stjórn Sóknarhóps?
Ég býð mig fram þar sem ég brenn fyrir uppgangi Vestfjarða og vil leggja fram reynslu mína. Ég hef rekið fyrirtæki í ferðaþjónustu frá 2016 og stofnað kertaframleiðslu 2021. Hef sérstakan áhuga á nýsköpun, fyrirtækjarekstri og ferðaþjónustu. Ég hef sótt fjölda námskeiða og ráðstefna í greininni og sé mikil tækifæri til vaxtar og þróunar. Ég vil standa vörð um vestfirska ferðaþjónustu og leggja mitt af mörkum í Sóknarhópnum með reynslu minni og eldmóði.
Skemmtileg staðreynd um mig:
Ég á fleiri nöfnur á landinu sem eru bátar en konur.