Fara í efni

Act alone hefst í kvöld

Fréttir

Leiklistarhátíðin Act alone hefst í kvöld, 2. júlí, kl. 20:00, í Alþýðuhúsinu á Ísafirði og stendur til 6. júlí. Opnunarsýning hátíðarinnar er einleikurinn Steinn Steinarr sem verður sýndur á breiðtjaldi í Ísafjarðarbíói. Seinna um kvöldið verður tvíleikurinn Búlúlala - Öldin hans Steins sýndur í Hömrum. Svo tekur hver sýningin við af annarri alveg fram á sunnudag en 24 sýningar eru á dagskránni í ár, þar af þrjár erlendar. Act alone er nú haldin í fimmta sinn en hún er eina árlega leiklistarsýningin á landinu.

Fjölmargar nýjungar verða á Act alone 2008, því nú verður ekki bara leikið heldur líka dansað og sungið. Boðið verður upp á þrjár einleiknar danssýningar. Eins verður boðið upp á leiklistarnámskeið og kennslustund í að reka eins manns leikhús. Einnig verða sýndir tveir tvíleikir sem báðir eru byggðir á verkum íslenskra skálda.

Besta sýningin og besti leikarinn verða valin á leiklistarhátíðinni Act alone. Verður það í fyrsta sinn sem svo er gert en sérstök dómnefnd skipuð þremur áhorfendum á Ísafirði mun velja sigurvegarana. Nefndin mun afhenda verðlaunin á lokadegi hátíðarinnar í Haukadal í Dýrafirði strax að lokinni síðustu sýningu Act alone 2008.

Dagskrá Act alone má finna í heild sinni á heimasíðu hátíðarinnar www.actalone.net. Aðgangur að Act alone er ókeypis, en hátíðin nýtur stuðnings Menningarráðs Vestfjarða.

Frétt afrituð lítið breytt af www.bb.is.