Vinna við áfangastaðaáætlun á Vestfjörðum gengur vel og er á áætlun en Magnea Garðarsdóttir og Díana Jóhannsdóttir verkefnastjórar hjá Markaðsstofu Vestfjarða hafa haldið utan um vinnuna.
Nú er lokaáfanginn kominn á fullt en 22. febrúar sl. var haldin á Patreksfirði síðasti opni fundurinn á Vestfjörðum þar sem farið var í að draga fram áherslur hagaðila á forgangsröðun aðgerða.
Mikil og góð umræða skapaðist á fundinum um þau verkefni sem eru þörf á svæðinu. Helst ber að nefna málefni heilsárssamgangna á svæðinu sem hlutu mörg atkvæði í kosningu sem haldin var á fundinum.
Til að draga fram þessar áherslur svæðana á Vestfjörðum hafa verið haldnir opnir fundir á Ísafirði, Hólmavík og Patreksfirði. Á þessum fundum hefur verið farið yfir nokkur atriði sem tengjast vinnunni við áfangastaðaáætlunina og aðgerðaáætlunina, en einnig dregið fram hver forgangsröðun verkefna hagsmunaaðila verði á svæðinu. Sveitafélögin hafa einnig verið fengin til að forgangsraða hugmyndum af verkefnum á sínum svæðum sem og á Vestfjörðum í heild.
Í þessum lokaáfanga eru þessir forgangslistar samræmdir og þeir lagðir síðan fyrir svæðisráð áfangastaðaáætlunar á Vestfjörðum sem samanstendur af níu aðilum, sem og sveitarstjórnir.
Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á vef Ferðamálastofu og á vef Markaðsstofu Vestfjarða westfjords.is