Sunnudaginn 21. maí var úthlutað úr Barnamenningarsjóði Íslands. 41 verkefni hlutu styrk að þessu sinni og vekur athygli að þar á meðal af fjögur glæsileg verkefni á Vestfjörðum. Meðal þeirra er Barnamenningarhátíð Vestfjarða, sem haldin verður í fyrsta sinn í haust.
Vestfjarðastofa fékk styrk upp á 4.600.000 kr. til að halda Barnamenningarhátíð Vestfjarða. Hún verður haldin í september næstkomandi um gjörvallan landshlutann og er hátíðin haldin í samstarfi fjölda listamanna, skóla og menningarstofnana á Vestfjörðum. Henni er ætlað að kynna
fjölbreytilega menningu og hvetja börn til dáða í skapandi greinum, efla lýðræðisvitund þeirra og forystuhæfileika, og þroska menningarvitund þeirra.
Heimildamyndahátíðin Skjaldborg hlaut styrk upp á kr. 4.500.000 kr. fyrir Skjaldbökuna, fræðslu- og barnastarf Skjaldborgar. Skjaldbakan skríður um landið og býður upp á námskeið í heimildamyndagerð. Hún býður krökkum að horfa í kring um sig og skoða sitt nærumhverfi og sinn hversdagsleika í gegnum nýja linsu. Verkefnið gefur þeim tækifæri til þess að varpa sínum hugarheim á hvíta tjaldið og upplifa sig sem höfund verks í sal fullum af áhorfendum. Skjaldbakan vinnur með skólum á Patreksfirði, Seyðisfirði og í Reykjavík og býr þannig til tengingar þvert yfir landið.
Steingrímur - Listfélag Steingrímsfjarðar fékk styrk að upphæð 1.000.000 kr. fyrir verkefnið Ísleifur á heimaslóðun. Valin verk Ísleifs Konráðssonar verða sýnd í gamla bókasafninu á Drangsnesi haustið 2023. Málverk eftir listamanninn sem hann málaði af heimahögunum verða til sýnis. Haldið verður verkstæði í tengslum við sýninguna og börnum í Steingrímsfirði gefið tækifæri til að kynnast verkum Ísleifs og skapa sjálf þematengd listaverk í mismunandi miðla. Nemendur á Drangsnesi og Hólmavík njóta góðs af verkefninu í formi fræðslu og skapandi verkstæðavinnu. Sýning á verkum barna haldin í lokin
Listasafn Ísafjarðar fékk einnig styrk upp á 970.000 kr. fyrir verkefnið Einn, tveir og skapa! Verkefnið er unnið í samstarfi við Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar, Safnahúsið á Ísafirði o.fl. þar sem Listasafn Ísafjarðar heldur utan um listasmiðjur fyrir börn samhliða haustsýningu safnsins. Börnin fá tækifæri til að vinna á skapandi og sjálfbæran hátt undir leiðsögn listamanna sýningarinnar auk annarra menntaðra listamanna. Áhersla er lögð á að þau sæki innblástur í sýninguna, umhverfi og safneign safnsins sem þau túlka á sinn hátt. Að lokum setja þau saman eigin sýningu á gangi Safnahússins.
Við óskum styrkþegum um landið allt innilega til hamingju og þökkum stuðninginn við Barnamenningarhátíð Vestfjarða.