Á sunnudag á milli kl. 13 og 16 verður Beint frá býli dagurinn haldinn hátíðlegur á Sauðfjársetrinu á Ströndum. Beint frá býli dagurinn fór í fyrsta sinn fram í fyrra á 15 ára afmæli félagsins. Markmiðið var að kynna starfsemi heimavinnsluaðila á lögbýlum fyrir heimafólki og gestum. Tókst hann með slíkum ágætum að ákveðið var endurtaka leikinn í ár og fer hann nú fram á sjö lögbýlum í öllum landshlutum.
Gestgjafinn er Húsavíkurbúið á Ströndum en viðburðurinn verður haldinn á Sauðfjársetrinu Sævangi sem er steinsnar frá býlinu. Einnig fer þar fram á sama tíma hið geysivinsæla Íslandsmeistaramót í hrútadómum (hrútaþukl) svo það verður nóg um að vera.
Þann dag munu heimavinnsluaðilar og smáframleiðendur matvæla úr landshlutanum mæta á Sævang til að kynna og selja vörur sínar á matarmarkaði. Boðið verður upp á kjötsúpu og kaffihlaðborð í Sauðfjársetrinu. Þetta er spennandi viðburður fyrir alla fjölskylduna því umhverfi Sævangs er töfraheimur fyrir yngstu kynslóðina þar sem til að mynda er hægt að klifa á rafmagnskeflum og skoða gamlar dráttavélar.
Öll eru velkomin á þennan spennandi viðburð!