Fara í efni

Dalir og Hólar

Fréttir

Núna um verslunarmannahelgina verður opnuð fremur sérstæð myndlistarsýning undir heitinu Dalir og Hólar. Hér eru á ferð átta myndlistarmenn með verk sín á nokkrum stöðum í Dalasýslu og Reykhólahreppi samtímis. Sýningarstaðirnir eru af ýmsum toga - húsarústir, eyðibýli, kaupfélag eða tiltekið svæði. Kveikjan að framtakinu er löngun til að sækja út fyrir hefðbundna sýningarsali, eða eins og segir í kynningu: „Sækja hugmyndir og vinna út frá náttúru og menningu landsins, efna til samstarfs við heimamenn og draga sýningargesti í ferðalag um þetta fallega svæði og leiða þá um sveitir Dalasýslu og Reykhólahrepps. Hver þátttakandi hefur valið sér sýningarstað eða svæði til þess að vinna með og flest er verkin unnin út frá staðháttum og sögu svæðisins."

Listamennirnir átta eru Eric Hattan, Hildigunnur Birgisdóttir, Hreinn Friðfinnsson, Kristinn G. Harðarson, Magnús Pálsson, Sigurður Guðjónsson, Sólveig Aðalsteinsdóttir og Þóra Sigurðardóttir. Sýningin hefst á laugardaginn 2. ágúst kl. 14 og stendur fram á sunnudag 10. ágúst. Aðgangur að verkunum er frjáls allan tímann nema að þeim sem verða í Króksfjarðarnesi. Þar verður einungis opið helgarnar tvær (laugardag og sunnudag) frá klukkan 14:00-18:00. Bæklingur með korti af svæðinu og sýningarstöðum liggur frammi á bensínstöðvum og verslunarstöðum í Dölum og Reykhólahreppi.

Nánari upplýsingar um listafólkið og staðina og annað sem sýningunni viðkemur er að finna á vefsíðunni http://www.kgh.is/dalirogholar. Sýningin er styrkt af Menningarráði Vestfjarða og Menningarráði Vesturlands.

Þessi frétt er afrituð lítið breytt af vefnum www.reykholar.is.