Á 2. hæð Safnahússins á Ísafirði eru nú til sýnis dúkkulísur frá 1960-80. Á Safnavef Ísafjarðarbæjar segir að margar þeirra hafi verið keyptar í Bókabúð Matthíasar Bjarnasonar og Bókhlöðunni á Ísafirði og ekki ólíklegt að einhverjar Ísfirskar konur kannist við gamla félaga.
Dúkkulísur hafa lengi verið vinsæl leikföng, ódýrar og á flestra færi að eignast þær. Einnig voru dúkkulísur oft notaðar til að auglýsa vörur og þá gjarnan á þann hátt að birta þær í blöðum og tímaritum eða jafnvel utan á pakkavörum, t.d. morgunkorni. Vinsældir dúkkulísunnar náðu hámarki á milli 1930 og 1950, en eftir það jókst úrval ódýrra leikfanga til muna. Dúkkulísur endurspegla að sjálfsögðu tískuna á þeim tíma sem þær eru framleiddar, eins og glöggt má sjá á litríkum klæðnaði dúkkulísanna sem heiðra gesti Safnahússins með nærveru sinni!