Síðastliðinn föstudag, þann 24. apríl hélt Vestfjarðastofa stóran fjarfund með yfirskriftinni; Nýtast úrræði stjórnvalda fyrir ferðaþjónustu og verslun á Vestfjörðum?
Góð mæting var á fundinn og þóttist hann takast einstaklega vel en þegar mest var voru um 48 aðilar skráðir inn á fundinn. Díana Jóhannsdóttir sviðsstjóri hjá Vestfjarðastofu stjórnaði fundinum og fór yfir úrræði stjórnvalda, Daníel Jakobsson formaður Ferðamálasamtaka Vestfjarða fór síðan yfir mál ferðaþjónustunnar. Miklar og góðar umræður áttu sér stað þar sem aðilar sögðu frá því hvaða úrræði þeir höfðu nýtt sér og hvaða vankanta þeir höfðu rekist á.
Ferðaþjónar voru sammála um að óvissan væri erfiðust enda enn óljóst hvernig sumarið yrði. Margir hafa nýtt hlutabótaleiðina og einhverjir aðilar eru að skoða lán. Það var þó almennt skoðun ferðaþjóna að lántaka væri skammvinn lausn og ef til vill þyrfti að skoða hvort fyrirtækin myndu „leggjast í dvala“.
Mikil óvissa er enn með framkvæmda margra ferða vegna 2 metra reglunnar, sérstaklega í farþegaflutningum svo sem bátsferðum og rútuferðum. Jafnframt þarf skýrar leiðbeiningar um sameiginlega aðstöðu og búnað.
Aðalsteinn Óskarsson hjá Vestfjarðastofu greindi frá því að búið væri að senda umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem tekið var fram að það þurfi að taka tillit til hertra aðgerðar og að lokunarstyrkir þyrftu að vera víðtækari.
Næsti fundur fyrir ferðaþjónustuaðila verður næsta fimmtudag, þann 30. apríl en þar boðar Vestfjarðastofa til fjarfundar um markaðssetningu innanlands kl. 13:30-14:30. Á fundinum verður farið yfir aðgerðir stjórnvalda er snúa að markaðssetningu innanlands og hugarflug um hvernig vestfirskri ferðaþjónar geta herjað á innanlandsmarkaðinn.