Fara í efni

Fjölnota pokar á hvert heimili á Vestfjörðum

Fréttir

Dagana 4.-15. júlí verða sendir út fjölnota pokar á hvert heimili á Vestfjörðum. Fjórðungssambandið hefur í samvinnu við sveitarfélögin verið að vinna að því að fá starfssemi sveitarfélaganna umhverfisvottaða síðustu árin. Ákveðið var að fara í hliðarverkefnið „Plastpokalausir Vestfirðir“ samhliða. Verkefnið gengur út á að Vestfirðir verði að mestu burðarplastpokalausir árið 2017.

 

Nú þegar hafa rúmlega 1300 pokar verið sendir á heimili á Vestfjörðum, en enn á eftir að senda rúmlega 1300 poka í viðbót. Ættu öll heimili á Vestfjörðum að hafa fengið fjölnota poka sendan í lok mánaðarins.

 

Verkefnið hlaut styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu upp á 800 þúsund og hefur það fjármagn verið nýtt til að kaupa fjölnota poka, hanna logo og fjármagna sendingarkostnaðinn. Íbúar á Vestfjörðum eru hvattir til að taka þátt í verkefninu og huga að því hvort möguleiki sé að finna aðrar lausnir en plastpoka t.d. þegar verslað er. Áætlað er að árið 2014 hafi verið um 5.250 milljarðar plaststykkja í sjónum og að um 10 milljón tonna af plasti lendi í sjónum árlega, eða um 1 kg af plasti á hvert mannsbarn í heiminum.