Fara í efni

Fjórðungsþing Vestfirðinga: Þinggerð komin út

Fréttir Fjórðungssamband Vestfirðinga

69. Fjórðungsþing Vestfirðinga að hausti var haldið í Bjarnarfirði dagana 18.-19. október sl. Sveitarstjórnarfulltrúar úr fjórðungnum fjölmenntu og starfsfólk Vestfjarðastofu hélt utan um þingið, auk þess komu ungmenni úr Ungmennaráði Vestfjarða og fylgdust með fyrri degi þingstarfa.

Komin er á heimasíðu okkar þinggerð 69. Fjórðungsþings að hausti. Þar má kynna sér allt sem fram fór á þinginu; þau ávörp sem flutt voru, þau þingmál sem lögð voru fram, erindi framsögufólks og afgreiðslu ályktana.

Allar ályktanir á einum stað
Fyrir þinginu lá að þessu sinni mikill fjöldi mála eða 28 við upphaf þings. Að loknum nefndarstörfum lágu fyrir 18 ályktanir sem allar voru samþykktar með meirihluta atkvæða. Hér má finna samantekt á öllum ályktunum.

Samþykktar ályktanir voru: Uppbygging Tetra sambands samhliða uppbyggingu farnetskerfa á stofnvegum, uppbygging farnetskerfa á tengivegum, endurskoðun hættumats ofanflóða, aukið fjármagn fyrir löggæslu á Vestfjörðum, rekstur náttúrustofa, aukin kynning á Vestfjörðum fyrir erlendum fjárfestum og fyrirtækjum, fjármagn til sóknaráætlana, rannsóknir og nýsköpun, jöfnun kostnaðar vegna flokkunar og förgunar úrgangs, setning laga um lagareldi, hafnarmál, tillögur Strandanefndar, heitavatnsleit á Gálmaströnd, vetrarþjónusta á Vestfjörðum, frestun útboða í vegaframkvæmdum á árinu 2024, Bíldudalsvegur 63, Samgönguáætlun og Vestfjarðalína.