Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga lýsir áhyggjum af framtíð sauðfjárbúskapar á
Vestfjörðum vegna fyrirsjáanlegar mikillar tekjuskerðingar í greininni. Sauðfjárrækt er víða lykilþáttur í atvinnu og samfélagsgerð sveitarfélaga á Vestfjörðum, sveitarfélaga sem hafa haft í vök að verjast með tilliti til byggða- og atvinnuþróunar.
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga telur að mótvægisaðgerðir sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra við erfiðri stöðu sauðfjárbúskapar, gangi of skammt til að mæta sérstæðum aðstæðum á Vestfjörðum. Stjórn FV bendir á að vegna fábreytni atvinnulífs og strjálbýlis er erfitt að finna eða sækja í aðra atvinnu til að styðja við rekstur sauðfjárbúa, því sé veruleg hætta á að sauðfjárbúum fækki á Vestfjörðum. Slík þróun er í raun ótæk með tilliti til hagsmuna sauðfjárræktar á Íslandi, þar sem Vestfirðir eru hreint svæði með tilliti til sauðfjársjúkdóma. Vestfirðir eru einnig sá landshluti þar sem vandi vegna ofbeitar er lítt til staðar og gæti landið í raun þolað meira beitarálag.
Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hvetur því sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra að gera úttekt á þeim tækifærum sem felast í sérstöðu sauðfjárbúskaps á Vestfjörðum. Slík úttekt verði nýtt til að vinna nýjar tillögur sem verði til að efla sauðfjárbúskap á Vestfjörðum í stað þess að draga úr honum