Ríkisstjórn Íslands fundaði í dag með sveitarstjórnarmönnum á Vestfjörðum og Vestfjarðastofu á Ísafirði fimmtudaginn 1. september. Á fundinum fór Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu yfir sameiginlega sýn og helstu hagsmunamál svæðisins og fulltrúar sveitarfélaganna drógu fram stærstu hagsmunamál sveitarfélaganna.
Á fundinum kom fram að meginviðfangsefni svæðisins snúa öll að því að styrkja samkeppnisstöðu Vestfjarða til búsetu, sem áfangastað ferðamanna og til fjárfestinga og atvinnustarfsemi. Kröfur Vestfirðinga um innviðaúrbætur eru eingöngu til að samkeppnisstaða svæðisins jafnist á við önnur svæði á landsbyggðunum. Bent var á byggðaáætlun sem samþykkt er á Alþingi, þar sem meginmarkmið eru að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Þar er jafnframt tekið fram að sérstök áhersla skuli lögð á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun og einhæft atvinnulíf.
Til þess að samkeppnisstaða svæðisins styrkist þarf fjárhagsleg staða sveitarfélaganna að vera þannig að þau geti sinnt innviðauppbyggingu eftir langvarandi niðursveiflu síðustu 30 ára og að stutt sé með öflugum hætti við þá sókn svæðisins sem er í sjónmáli.
Á fundinum lögðu sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum áherslu á mikilvægi þess að nærsamfélagið njóti uppbyggingar í fiskeldi og að hagsmuna þeirra sé gætt við stefnumótun í greininni. Til þess leggja fiskeldissveitarfélög áherslu á að fiskeldisgjald verði beinn tekjustofn sveitarfélaga til að tryggja hraðari uppbyggingu innviða fiskeldissveitarfélaga. Jafnframt þarf að endurskoða hafnalög til að heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku verði ótvíræðar og í samræmi við eðli atvinnugreinarinnar.
Húsnæðisskortur stendur atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum og þar erum við enn ekki komin á þann stað að verð íbúðahúsnæðis standi undir byggingarkostnaði á öllu svæðinu.
Samgöngur, fjarskipti og orkumál eru efst í forgangsröðun svæðisins en til viðbótar þarf að ræða aukna fjölbreytni atvinnulífs, menntunar og menningar sem þarf til að svæðið nái vopnum sínum.
Yfirstandandi samgönguframkvæmdir við nýjan veg um Gufudalssveit og Dynjandisheiði auk Dýrafjarðarganga gera að verkum að í sjónmáli er bylting í samgöngum svæðisins. Næstu skref lúta að því að tryggja enn betur nýtingu á þeirri miklu fjárfestingu sem fólgin er í samgöngubótum og efla atvinnusvæðin og samgöngur milli þeirra. Lögð er áhersla á hraða uppbyggingu jarðgangna innan atvinnusvæða auk öflugrar vetrarþjónustu og viðhaldi vega.
Áhersla var lögð á að tryggja eftirfylgni skýrslu starfshóps umhverfis- orku og auðlindaráðherra sem út kom síðasta vor með tímasettri áætlun um forgangsröðun og uppbyggingu í raforkukerfi Vestfjarða á næstu árum.
Efling ferðaþjónustu á Vestfjörðum með áherslu á að byggja upp og markaðssetja Vestfjarðaleiðina sem ferðaleið sem er fær allt árið. Ýta þarf undir fjárfestingar, byggingar nýrra gististaða og fjölbreyttrar þjónustu.
Ekki njóta öll sveitarfélög á Vestfjörðum þeirrar uppsveiflu sem fiskeldið skapar og hér eru viðkvæm svæði þar sem sauðfjárrækt er stór hluti atvinnulífs. Að þeim þarf að gæta sérstaklega þar sem byggð á þessum svæðum stendur raunveruleg ógn af stöðu sauðfjárræktar og þar þarf að koma inn með öflugum hætti.
Á fundi sveitarstjórnarmanna með ríkisstjórn var áhersla lögð á að í augsýn væru tækifæri til að breyta byggðaþróun á Vestfjörðum með samstilltu átaki ríkis og sveitarfélaga um að taka saman höndum og raunverulega forgangsraða í þágu þessa svæðis til að það geti risið upp og orðið sú aflstöð þekkingar og verðmætasköpunar sem það hefur alla burði í að verða.