Fara í efni

Galdrakarlinn í OZ kemur vestur!!

Fréttir

Í sumar mun Leikhópurinn Lotta sýna undir berum himni fjölskyldusýninguna Galdrakarlinn í Oz víðsvegar um landið en leikhópurinn sýndi einmitt Dýrin í Hálsaskógi í fyrrasumar við miklar vinsældir. Flestir þekkja söguna af ævintýralegu ferðalagi Kansasstúlkunnar Dórótheu og Tótó, hundinum hennar, til landsins Oz og hvernig hún kynnist heilalausu Fuglahræðunni, hjartalausa Pjáturkarlinum og huglausa Ljóninu og kemst í kast við vondu Vestannornina sem vill ná af Dórótheu silfurskónum sem henni eru gefnir. Spurning er bara hvort Galdrakarlinn ógurlegi í Oz getur hjálpað Dórótheu að komast aftur heim og vinum hennar að fá það sem þá svo sárlega vantar.

Leikstjóri og höfundur leikgerðar er Ármann Guðmundsson og er hann jafnframt höfundur tónlistar og söngtexta ásamt þeim Baldri Ragnarssyni, Eggerti Hilmarssyni og Snæbirni Ragnarsyni en þeir eru allir meðlimir hljómsveitarinnar Ljótu hálfvitarnir. Með helstu hlutverk fara Rósa Björk Ásgeirsdóttir sem Dóróthea, Baldur Ragnarsson sem Fuglahræðan, Sigsteinn Sigurbergsson sem Pjáturkarlinn, Anna Bergljót Thorarensen sem Ljónið og hundurinn Bella sem Tótó.

Miðapantanir eru í síma 770-0403 og frekari upplýsingar um sýningar og sýningastaði er að finna á www.leikhopurinnlotta.is.
Sýnt verður á Bíldudal laugardaginn 5.júlí (nánari upplýsingar um staðsetningu og tíma sjá www.leikhopurinnlotta.is) og á gamla sjúkrahústúninu á Ísafirði sunnudaginn 6.júlí kl.14.00.