Það hefur verið ansi gestkvæmt á Vestfjarðastofu að undanförnu. Að þessu sinni eru það frambjóðendur til Alþingiskosninga sem hafa verið duglegastir að reka inn nefið. Það hefur ekki verið alveg óforvarindis þar sem framkvæmdastjórinn, Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, sendi erindi á öll framboð í Norðvesturkjördæmi og bauð þeim í heimsókn. Mörg hafa þegið heimboðið og hafa þau öll fengið nokkuð ítarlega kynningu á helstu áskorunum í fjórðungnum frá þeim Sigríði og Aðalsteini, auk þess sem fram hefur farið gott spjall um helstu málefni líðandi stundar. Meðfylgjandi eru myndir frá nokkrum heimsóknanna, í einhverjum tilfellum gleymdist því miður að smella af.
Við fögnum ávallt góðum gestum hvert sem erindið kann að vera og hvetjum við fólk til að vera ófeimið við að koma í heimsókn. Innan veggja Vestfjarðastofu er heilmikil þekking á ólíkum sviðum sem getur til að mynda gagnast ferðaþjónum, frumkvöðlum, fyrirtækjaeigendum, kjörnum fulltrúm og menningarvitum – svo fátt eitt sé nefnt. Verið velkomin.