Góð mæting og sérlega sterk samstaða einkenndi íbúafund í Árneshreppi sem haldinn var í félagsheimilinu í Trékyllisvík þann 11. ágúst.
Arinbjörn Bernharðsson formaður verkefnisstjórnar setti fundinn og bauð fundargesti velkomna til fundarins.
Sigríði Elínu Þórðardóttur, forstöðumanni þróunarsviðs Byggðastofnunar, lýsti yfir ánægju með fundinn og þann kraft sem væri í samfélaginu í Árneshreppi. Hún greindi frá samþykkt ríkisstjórnar frá í apríl s.l. um árs framlengingu verkefnisins, til loka árs 2022. Sú ákvörðun var m.a. tekin á grundvelli greinargerðar verkefnisstjórnar Áfram Árneshreppur sem send var fjórum ráðuneytum á fyrri hluta þessa árs, vegna viðkvæmrar stöðu samfélagsins í Árneshreppi. Í greinargerðinni var varpað ljósi á viðkvæma stöðu samfélagsins m.t.t. helstu innviða. Mat var lagt á stöðu sjö málaflokka og tillögur verkefnisstjórnar um umbætur settar fram á hverju málefnasviði. Í kjölfarið vann samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið að minnisblaði m.a. um málefni Árneshrepps þar sem lagt var til að verkefninu yrði fram haldið út árið 2022. Fram kom í máli Sigríðar Elínar að sú greiningarvinna sem lögð var fram í greinargerðinni hafi m.a. leitt til þess að stjórnvöld tóku ákvörðun um að framlengja verkefnið ÁÁ um eitt ár og Byggðastofnun hefur orðið við þeirri beiðni. Sigríður Elín hvatti íbúa og aðila sem koma að verkefninu Áfram Árneshreppur að snúa bökum saman og nýta viðbótartímann sem allra best í þágu samfélagsins í Árneshreppi.
Næst tók til máls Skúli Gautason, verkefnastjóri. Hann kynnti efni greinargerðar sem verkefnastjórn tók saman fyrr á þessu ári. Markmið greinargerðarinnar var að lýsa stöðu og setja fram tillögur um verkefni er vörðuðu inniviði og samfélagslega þætti. Greinargerðin skiptist í sjö kafla með tillögum um verkefni til lengri og skemmri tíma. Greinargerðin var send samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, forsætisráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti, kynnti stöðu verkefnis um lagningu ljósleiðara og þriggja fasa rafmagnskapals í Árneshreppi. Byggir verkefnið á umsókn í Fjarskiptasjóð, fyrsti áfangi yrði lagning strengja í Djúpavík úr Steingrímsfirði, næsti áfangi yrði lagning strengja úr Djúpavík og í Norðurfjörð, en þar vantar fjármagn fyrir lagningu rafstrengs.
Aðalsteinn Óskarsson, sviðsstjóri byggðaþróunar hjá Vestfjarðastofu, kynnti stöðu tillögu um umhverfismál úr C9 verkefni og svar umhverfis- og auðlindaráðuneytis við greinargerð verkefnisstjórnar.
Greinargerðin verður væntanlega birt opinberlega eftir að hún hefur verið kynnt stjórnvöldum en sú vinna stendur enn yfir.
Skúli kynnti síðan samantekt á verkefnastyrkjum frá upphafi verkefnisins og bauð jafnframt viðstöddum forsvarsmönnum verkefna að kynna stöðu þeirra á fundinum. Einnig kynnti hann aðra styrki sem hafa verið veittir til verkefna í Árneshreppi m.a. úr Öndvegissjóði. Samtölur styrkveitinga á árunum 2018-2021 eru þessar: Til iðnaðarverkefna: 3,03 m.kr., til menningarmála 9,05 m.kr., til heilsueflandi verkefna 7,48 m.kr., til ferðaþjónustuverkefna 8,81 m.kr., til samfélagsverkefna 4,93 m.kr. og til orkuverkefna 0,8 m.kr.
Ómar Bjarki Smárason kynnti stöðu á hitaveituverkefninu, undirbúningur á rennslisprófun er í undirbúningi. Kannað verður hvort mögulegt sé að hafa sjálfrennandi vatn sem er hentugast en annars yrði að setja dælu á holuna. Prófun verður framkvæmd eftir miðjan september. Eins hefur verið hugað að næstu skrefum varðandi undirbúning hitaveitu.
Baskaverkefnið. Til stendur að stofna sjálfseignarstofnun „Baskasetur Íslands“ á grundvelli greiningar og kynningar á meðal fjölda aðila, innanlands sem og erlendis. Mikill áhugi er fyrir þessari sögu og telur forsvarsmaður verkefnisins, Héðinn Ásbjörnsson, grundvöll fyrir öflugri stofnun.
Fræðasetur í Finnbogastaðaskóla. Ómar Bjarki kynnti uppbyggingu fræðaseturs í Finnbogastaðaskóla. Ný hugmynd hefur kviknað varðandi innviða uppbyggingu sem snýr að því að ráða tvo starfsmenn með þekkingu á húsasmíði og kennslu. Hér myndi því skapast tækifæri til samnýtingar s.s. endurbætur húsa, nýbyggingar og umsjón með fræðasetrinu. Ómar Bjarki hefur einnig áhuga á að laða að arkitekta að verkefninu og ræddi jafnframt hugmyndir að endurbótum síldarverksmiðjunnar í Ingólfsfirði.
Djúpavíkurhús. Grétar Örn Jóhannsson kynnti stöðu verkefnisins. Unnið er að endurbótum á húsnæði í Djúpavík en vilji til að nota aðstöðu í Djúpavík til að byggja smáhýsi og skapa þar með atvinnutækifæri ef vel gengur. Stefnt er að því að frumgerð svokallaðs Djúpavíkurhúss verði tilbúin næsta vor og jafnframt fari af stað markaðssetning á húsunum.
Fundarhlé var gert kl. 19.30 og var boðið upp á fiskisúpu frá Kaffi Norðurfirði.
Hópastarf hófst kl. 20.00 og kynning niðurstaðna í framhaldinu. Mun árleg endurskoðun verkefnisáætlunar á næstu vikum ekki síst taka mið af þeim skilaboðum.
Önnur mál.
Kristján Þ. Halldórsson lagði fyrir fundinn hvort endurskoða ætti hvernig standa ætti að úthlutun styrkja úr Frumkvæðissjóði á þessu síðasta starfsári verkefnisins. Hvort stefna ætti að fáum og stórum styrkjum eða halda óbreyttu fyrirkomulagi styrkúthlutana, með opnu umsóknarferli og þá mögulega með fleiri og lægri styrkjum. Þrír fundarmanna lögðu áherslu á að halda úthlutun í sama horfi. Enginn fundarmanna vakti máls á stærri styrkjum.
Aftur hófust almennar umræður og var m.a. horft til gerjunar í kringum Lýðskólann á Flateyri og hugsanlega möguleika á álíka verkefnum í kringum Finnbogastaðaskóla, eða samstarfs við Lýðskólann.
Fundurinn lýsti yfir sérstakri ánægju með rekstur Verzlunarfjelags Árneshrepps og klappaði faktornum Thomas Elguezabal lof í lófa.
Í lok fundar varð umræða um erfiðar tilfinningar s.s. sorg, reiði, depurð, sem fólk upplifði í kjölfar deilna um Hvalárvirkjun, nokkuð sem hefur legið í þagnargildi. Nokkrir tjáðu sig um þessi mál á svipuðum nótum, lýstu þessu sem erfiðri upplifun. Almenn ánægja var á fundinum um að umræða hefði skapast um þessi mál, sem óneitanlega hafa litað mannlífið í Árneshreppi undanfarin ár. Það var eindregin ósk fundargesta að íbúar sameinist um að vinna úr þessum erfiða samskiptavanda og að sættir náist.