Fara í efni

Haustfundur atvinnuráðgjafa á Egilsstöðum

Fréttir

Haustfundur atvinnuráðgjafa landshlutasamtakanna var haldinn dagana 7.-8. nóvember á Egilsstöðum. Frá Vestfjarðastofu sóttu fundinn þær Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir, Guðrún Anna Finnbogadóttir og Magnea Garðarsdóttir. Í ferðinni fékkst góð kynning á því sem er að gerast á Austurlandi þar sem margt er líkt með Vestfjörðum.

Fimmtudagur 7. nóvember

Dagmar Ýr Stefánsdóttir framkvæmdastjóri Austurbrúar tók vel á móti hópnum og kynnti stöðuna á Austurlandi. Arnar Sigurðsson hjá Austan Mána, sem við þekkjum vel úr Blábankanum á Þingeyri frá því er hann var þar, kynnti ýmiskonar hraðla og vinnustofur sem hann stýrir og hvatti til þess að nálgast stuðning við nýsköpun í dreifðum byggðum á nýjan hátt.

Brynjólfur Borgar Jónsson fór yfir hvernig færa má gervigreind sér í nyt, Jákup Sörensen framkvæmdastjóri NORA kynnti starfsemina og hvatti aðila til að koma á samstarfi og sækja um styrki í NORA og að lokum var erindi frá Byggðastofnun.

Farið var í vettvangsheimsókn á Eskifjörð í Tandraberg og Tandrabretti en þar hefur verið unnin mikil þróunarvinna með timbur. Grunnurinn er smíði á brettum en á síðustu árum hafa verið þróaðar aðferðir til að kurla niður notuð bretti og búa til úr þeim trépillur. Framleiddar eru pillur úr harðari við, sem henta mjög vel sem eldiviður í trépilluofna, en síðasta vetur var sundlaugin á Neskaupstað kynt með þeim þegar ekki var nægjanlegt framboð af skerðanlegri orku. Svo eru það trépillur úr mýkri við sem eru mjög vinsælar í hesthúsum því þær draga í sig raka og er meiri eftirspurn en framboð á þessum pillum hjá hestafólki. Hjá fyrirtækinu er leitað allra leiða til að minnka kolefnissporið og eru hafnar tilraunir á að framleiða jarðkol sem hafa minni umhverfisáhrif þegar þau eru brennd.

Þá var ferðinni heitið í kvöldverð á Randulffssjóhúsinu. Þar tók Jóna Árný Þórðardóttir Bæjarstjóri Fjarðarbyggðar á móti hópnum og kynnti áform um grænan orkugarð í Fjarðabyggð. Jens Garðar Helgason aðstoðarframkvæmdastjóri laxeldisfyrirtækisins Kaldvíkur hélt stutta kynningu á fyrirtækinu fyrir hópinn. Danski matreiðslumaðurinn Michael Miv Pedersen ásamt nema hans á Jótlandi, Sigrúnu Sól Agnarsdóttur, elduðu ljúffenga laxarétti á frumlegan og spennandi hátt. Eftir fjóra mismunandi laxarétti beið hópurinn spenntur eftir því hvernig Pedersen myndi útfæra laxaeftirrétt en það reyndist vera berjaskyrréttur, en nær allt hráefnið í kvöldverðinn var úr héraði. Hópurinn var svo veðurtepptur á Eskifirði í um eina klukkustund en djúp lægð gekk yfir allt norðanvert landið þetta kvöld.

Föstudagur 8. nóvember

Á föstudeginum hófst dagurinn á heimsókn í Vallanes, búi með viðurkennda lífræna ræktun og var mikið ævintýri að heyra hvernig fyrirtækið hefur verið byggt upp síðastliðin 30 ár. Móðir Jörð er vörumerkið þeirra og líklegast er bankabyggið þeirra þekktasta vara. Þar er hringrásin fullkomnuð með skógrækt í kringum akra. Þannig fæst skjól auk þess sem meiri raki helst í jarðveginum svo minni líkur eru á uppskerubresti vegna þurrka. Það er gróðurhús á Vallanesi sem er kynnt upp með trépilluofni sem er 70-100 KW, en hann er notaður til að kynda öll húsin á svæðinu. Lúpínan gegnir lykilhlutverki í hringrásinni og er hún slegin sérstaklega. Stönglarnir eru holir að innan og eru þeir nýttir til moltugerðar, með því skapast mikill hiti í moltunni og þannig eyðast úr henni öll óæskileg fræ.

Á Hallormsstað hefur verið hússtjórnarskóli frá því 1930 er Sigrún P. Blöndal stofnaði skólann. Allar götur síðan hefur markmið hans verið að mennta og valdefla ungar konur – og nú fleiri kyn, með áherslu á skapandi sjálfbærni, nýtingu og hagnýt fræði á sviði matvælavinnslu. Þar er lögð áhersla á mikilvægi þess að tengja saman fræði og framkvæmd eða þekkingu handarinnar, sem hefur verið lykilþáttur í náminu. Nú hefur námsskráin frá 1930 verið endurvakin og endurbætt og á hún ekki síður við í dag en hún átti við fyrir tæpum 100 árum.

Ferðinni var síðan heitið í Skógarafurðir sem er fyrirtæki sem fletur timbur úr skógum á Austur- og Norðurlandi. Fyrirtækið var stofnað árið 2014 og hefur það verið í örum vexti síðan. Það er á fullu í nýsköpunarverkefnum til að fullnýta það timbur sem kemur í hús og er það nú að setja á markað svansvottaða arinkubba úr pressuðu sagi í umbúðum sem einnig nýtast í arininn.

Nýtt og glæsilegt þjónustuhús við Hengifoss var skoðað og þaðan var farið í Végarð þar sem sveitastjóri Fljótsdalshéraðs kynnti nýjan byggðakjarna, Hamborg, sem búið er að teikna og er næsta skref að bjóða út lóðir. Þá var hin glæsilega menningarmiðstöð Sláturhúsið heimsótt og þar var sérlega áhugavert að heyra um virkt ungmennastarf fyrir 16-20 ára sem er starfrækt þar með góðum árangri.

Austurbrú var einstaklega góður gestgjafi og lærdómsrík heimsókn að baki hjá Vestfirðingunum. Eftir ferðina situr hversu markvisst Austfirðingar vinna að sjálfbærni og leggja áherslu á lækkun kolefnisspors starfsemi sinnar, sem og að hámarka hringrás í héraði. Einnig var gaman að sjá hversu mikil áhersla er lögð á matvæli úr héraði og var hvarvetna boðið upp á úrvals veitingar.