Fara í efni

Heimsins ljós - Jóhannesarpassía í Ísafjarðarkirkju

Fréttir

Sannkallaðir páskatónleikar verða haldnir í Ísafjarðarkirkju á föstudaginn langa 21. mars kl. 17:00. Á tónleikunum verða fluttir valdir þættir úr Jóhannesarpassíunni eftir Johann Sebastian Bach, sem Janusz Frach hefur útsett fyrir litla kammersveit, sönghópa og upplesara. Tónlistarskóli Ísafjarðar fagnar 60 ára afmæli sínu á þessu ári og eru tónleikarnir liður í afmælishaldinu.

Kammersveitina skipa nokkrir nemendur og kennarar Tónlistarskóla Ísafjarðar ásamt tónlistarnemum úr Listaháskóla Íslands, þ.e. Janusz Frach, Maksymilian Frach, Geirþrúður Guðjónsdóttir og Halldór Sveinsson á fiðlu, Bjarni Frímann Bjarnason á víólu, Þorbjörg Daphne Hall á selló og Iwona Kutyla á orgel. Nokkrir stuttir einleikskaflar eru í höndum Arnþrúðar Gísladóttur á þverflautu, Madis Mäekalle  á kornett og Þrastar Jóhannessonar á gítar.

Sönghóparnir eru tveir, annar þeirra er skipaður ungum söngnemum og kórstúlkum sem flestar stunda söng- eða hljóðfæranám við Tónlistarskóla Ísafjarðar en hinn hópurinn er skipaður nokkrum ungum drengjum, sem einnig stunda nám við skólann. Upplestur skipar stóran sess í flutningnum, lesið er beint úr Jóhannesarguðspjalli en einnig eru lesin ljóð og sálmar sem eiga við efnið hverju sinni. Upplesturinn annast þau Þórunn Arna Kristjánsdóttir söngkona og leiklistarnemi og Pétur Markan guðfræðinemi. Það er Janusz Frach, fiðlukennari við Tónlistarskóla Ísafjarðar, sem á hugmyndina að tónleikunum og sér um útsetningar, æfingar og stjórnun, en alls eru þátttakendur í tónleikunum um 25 talsins.

Í Jóhannesarpassíunni er rakin píslarsaga Jesú Krists eins og hún kemur fyrir í Jóhannesarguðspjalli Nýja testamentisins. Tónskáldið fléttar inn í frásögn guðspjallsins textum sem eru hugleiðingar og útlegging á söguþræðinum og þannig eiga áheyrendur þess kost að upplifa píslarsöguna á áhrifamikinn og leikrænan hátt. Orðið passía er latneska heitið á þjáningarsögu Jesú Krists og fyrr á öldum átti samkvæmt helgisiðareglum að lesa alla píslarsöguna við guðsþjónustu á föstudaginn langa.

Tónleikarnir eru haldnir á vegum Tónlistarskóla Ísafjarðar og nýtur skólinn styrkja frá ýmsum fyrirtækljum og stofnunum vegna þessa verklefnis. Aðgangur er ókeypis.