Í síðustu viku heimsótti Lilja Alfreðsdóttir, menningar-, viðskipta- og ferðamálaráðherra norðanverða Vestfirði. Ráðherrann kom víða við og átti meðal annars hádegisfund með sveitarstjórnarfólki á Vestfjörðum þar sem rætt var um hin ýmsu mál sem varða málefni menningar og ferðamála.
Jafnframt bauð ráðherra í samstarfi við Vestfjarðastofu ferðaþjónum á opinn fund í húsnæði Vestfjarðastofu á Ísafirði fimmtudaginn 10. nóvember sem var vel sóttur.
Á föstudag heimsótti ráðherra svo hina ýmsu staði ásamt tveimur af þingmönnum kjördæmisins, Lilju Rannveigu og Höllu Signýju og starfsfólki Vestfjarðastofu og fékk hópurinn góðar móttökur í upplýsingamiðstöð ferðamanna í Neðstakaupstað, Byggðasafni Vestfjarða, Edinborgarhúsinu, Safnahúsinu, Tónlistarskóla Ísafjarðar, ráðhúsi Bolungarvíkur og Skúrinni á Flateyri.
Meðal þess sem rætt var voru efling menningarstarfsemi á svæðinu og þau miklu tækifæri sem til staðar eru í uppbyggingu ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Ráðherra fékk einnig kynningu á Baskasetri í Djúpavík og bauð upp á opinn viðtalstíma fyrir fólk á svæðinu. Þar að auki hlýddi ráðherra á á ljúfa tóna nemenda við Tónlistarskóla Ísafjarðar og bragðaði á dýrindis vestfirskum veitingum.