Fara í efni

Hvatt til endurskoðunar á gjaldtöku hafna vegna fiskeldis

Fréttir

Vestfjarðastofa hefur um langt skeið unnið að verkefnum tengdum þróun og uppbyggingu fiskeldis á Vestfjörðum. Hagsmunagæsla vegna leyfisveitinga og þeirrar umgjarðar sem atvinnugreininni er búin hefur verið þar rauður þráður. Að umgjörð atvinnugreinarinnar, farvegur leyfismála og eftirlits séu í lagi til að tryggja sjálfbærni atvinnugreinarinnar.

Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa um langa hríð kallað eftir að löggjöf um gjaldtöku hafna sé endurskoðuð og að auðlindagjöld sem fyrirtækin greiði fari til uppbyggingar innviða sveitarfélaganna, efli rannsóknir og að eftirlitsstörf byggist upp í nærumhverfi fiskeldisstarfseminnar. Hagsmunir alls samfélagsins snúast um að byggð sé upp arðbær atvinnugrein sem er í sátt við samfélag og umhverfi og að á öllum stigum séu leikreglur skýrar. 

Á 10. fundi Samráðsnefndar um fiskeldi sem haldinn var föstudaginn 4. júní sl. lagði framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu ásamt Bjarna Jónssyni, fiskifræðingi fram bókun þar sem hvatt er til að núverandi gjaldaumhverfi hafna verði endurskoðað, að reglugerð fyrir Umhverfissjóð sjókvíaeldis verði endurskoðuð og að sett verði reglugerð um fiskeldissjóð. 

Bókunin er meðfylgjandi: 

Undirrituð leggja til að samráðsnefnd um fiskeldi hvetji til þess að stofnaður verði starfshópur samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, umhverfis- og auðlindaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðherra og sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra með aðkomu Sambands sveitarfélaga og landshlutasamtaka sem málið varðar (á Vestfjörðum og Austfjörðum) til að endurskoða núverandi gjaldaumhverfi hafna gagnvart þjónustu við fiskeldi auk þess að endurskoða reglugerð um Umhverfissjóð sjókvíaeldis og setja reglugerð um fiskeldissjóð.
Lagt er til að markmið starfshópsins verði:

  1. Að ná utan um heildargjaldtöku af fiskeldi og undir hverju tekjunum er ætlað að standa sem og hvernig þær tekjur skiptast á milli ríkis og sveitarfélaga.
  2. Að tryggja sveitarfélögum, þar sem sjókvíaeldi er stundað, skýrar heimildir til töku gjalda af sjókvíaeldi*.
  3. Að tryggja að tekjur af slíkri gjaldtöku standi undir nauðsynlegum verkefnum sveitarfélaga** og tryggð sé sjálfbærni hafna og samfélaga þar sem sjókvíaeldi fer fram.
  4. Að vinna að endurskoðun reglugerðar fyrir Umhverfissjóð sjókvíaeldis með það að markmiði að tryggja að rannsóknir og vísindaþekking byggist upp í nærumhverfi fiskeldisstarfseminnar.
  5. Að vinna tillögu að reglugerð fyrir fiskeldissjóð þar sem ákvæði laga um fiskeldissjóð verði skýrð og tryggt að fjármunir sem renna í sjóðinn frá fiskeldisstarfsemi muni nýtast sveitarfélögum á áhrifasvæði sjókvíaeldis sem tekjustofnar út frá skýrum úthlutunarreglum en ekki sem umsóknasjóður.  Horft verði til nágrannaþjóða með útfærslu (Færeyja, Noreg, Skotland). Tryggt sé með skýrum hætti að tekjur fiskeldissjóðs nýtist til uppbyggingar grunngerðar og innviða á fiskeldissvæðum.

Mikilvægt er að skýra og samræma hvernig sveitarfélög leggja hafnargjöld á fiskeldisfyrirtæki. Það laga- og reglugerðarumhverfi sem sveitarfélögin þurfa að vinna eftir vegna fiskeldis hefur haft verulega neikvæð áhrif, þar sem óeðlilegur hvati er í núgildandi löggjöf þannig að sveitarfélög keppast um að fá eldisfiski landað til sín á sama tíma og þjónustuhafnir í fiskeldi hafa litlar sem engar tekjur til að standa undir umsvifum fiskeldis. Stærstur hluti tekna sveitarfélaga kemur á löndunarstað við sláturhús sem endurspeglar ekki þá nýtingu mannvirkja og þjónustu sem eldið þarf. Það er því mikilvægt að skýra forsendur gjaldtökunnar og samræma reglurnar á landsvísu.

Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir

Bjarni Jónsson

* Sjókvíaeldi er þá sem heildarsamnefnari fyrir gjaldtöku. Annarsvegar þjónustugjöld s.s. í höfnum, veitum þ.e. B hluta stofnanir. Hinvegar að gjald af fiskeldiskvíum renni beint til sveitarfélaganna, mætti segja að Fiskeldissjóður sé þar með óþarfur nema sem innheimtuaðili en veitt sé úr honum á grundvelli reglugerðar ekki sjóðsstjórnar.

** Gera þarf greinarmun á þjónustugjöldum og gjaldtöku sem renni til annarra verkefna sveitarfélaga. Sveitarfélög á svæðum þar sem laxeldi í sjó er heimiliað, hafa lagt áherslu á við stjórn Fiskeldissjóðs að framlög Fiskeldissjóðs miðist við að efla A hluta verkefni sveitarfélaganna