Fara í efni

Iðandi menningarlíf á Púkanum

Fréttir

Púkinn, barnamenningarhátíð Vestfjarða er í fullum gangi. Í síðustu viku var heilmargt um að vera fyrir vestfirsk grunnskólabörn. Krakkaveldið tók yfir Hrafnseyri á fimmtudaginn. Þar komu saman nemendur frá Þingeyri, Flateyri og Suðureyri og sköpuðu frábært verk sem sýndi afrakstur vinnu undanfarinna daga er þau köfuðu ofan í það hvernig samfélagið þeirra og heimurinn litu út ef börn væru við stjórn. Veðrið lék við hvern sinn fingur og krakkarnir stóðu sig frábærlega í að koma kröftugum skilaboðum sínum áleiðis til hinna fullorðnu. Alla síðustu viku var Sigríður Soffía Níelsdóttir á fljúgandi ferðinni um Vestfirði og kenndi nemendum á mið- og unglingastigi að dansa púkasporið. Auk þess kynnti hún heim Eldblómsins sem opinberar hvernig dans varð að vöruhönnun, hvernig blóm og flugeldar tengjast og hvernig það má rækta flugeldasýningu, gera ilmi og drykki - og jafnvel ljóðabók.

Þá lagði Leiry Seron af stað með gervigreindarsmiðjur þar sem krökkum gefst kostur á að skapa list með aðstoð gervigreindar og heldur hún áfram ferðalaginu í þessari viku að bjóða upp á þennan nýstárlega viðburð sem krakkarnir eiga eflaust eftir að fullkomna að færa sér í nyt á sinni lífsgöngu. Daglega voru krakkarnir í Ásgarðsskóla, skóla í skýjunum með opinn púkaklúbb með spennandi viðburðum og heldur hann áfram út hátíðina, en finna má Discord tengil og upplýsingar um einstaka dagskrárliði á heimasíðunni okkar. Það var líka eitt og annað hægt að gera utan skóla eins og að taka þátt í smiðju í sagnagerð og myndskreytingu á Patreksfirði, að hljóðsetja teiknimynd í Tónlistarskóla Ísafjarðar og fara á krakkadiskó á Flateyri.

Þessi seinni vika er ekki síður uppfull af ævintýrum fyrir vestfirsk börn. Gervigreindarsmiðjan heldur áfram, vinnustofur í grímugerð verða á Ströndum og Reykhólum, Skjaldbakan, námskeið í heimildarmyndagerð verður í Patreksskóla, þar sem einnig verður tónlistar- og hreyfinámskeið fyrir nemendur á yngsta og miðstigi. Í Edinborgarhúsinu verður kvikmyndagerð fyrir 9. bekkinga á Ísafirði á vegum UngRIFF. Á norðanverðum Vestfjörðum kemur líka List fyrir alla í heimsókn með Svakalegar sögur. Svo verða á föstudaginn lokahátíðir Púkans á Ströndum, Patreksfirði, Ísafirði og í Bolungarvík fyrir öll vestfirsk grunnskólabörn. Utan skóla er í dag boðið upp á athyglisverða smiðju í Listasafni Ísafjarðar þar sem hægt verður að kynnast ljósmyndun sem frásagnarmiðli. Á fimmtudaginn verður flugdrekasmiðja í Edinborg og á Galdrasýningunni á Hólmavík býðst krökkum að koma og skapa sinn eigin Miðgarðsorm.

Kíkið endilega á dagskrána á heimasíðu Púkans

Einnig er hægt að fylgja okkur á Facebook og á Instagram