Fara í efni

Innviðafélag Vestfjarða undirritaði samstarfssamning við Bláma

Fréttir

Mikið líf var í höfuðstöðvum Vestfjarðastofu á Ísafirði í gær. Í hádeginu kom Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis–, orku- og loftslagsráðherra og átti léttan hádegisfund með sveitastjórnarfólki á norðanverðum Vestfjörðum þar sem rædd voru orkumál í fjórðungnum. Í beinu framhaldi af því var kynningarfundur á Innviðfélagi Vestfjarða þar sem samstarfssamningur var undirritaður á milli þess og Bláma.

Innviðafélag Vestfjarða ætlar sér að vinna að bættum innviðum og að baki því standa 14 fyrirtæki á svæðinu sem skapa um 70% af tekjum vestfirskra fyrirtækja. Hægt er að kynna sér félagið betur á heimasíðunni www.innvest.is

Talsmaður félagsins er Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis og hélt hann tölu um þá þróun sem hefur átt sér stað í atvinnulífi á Vestfjörðum undanfarin ár þar sem tekjur hafa þrefaldast. Sagði hann mikilvægt að bregðast við með bættum samgöngum og orkuinnviðum þar sem sterkir innviðir væru forsenda sterkra samfélaga og skortur þar á hamlandi hinu drífandi atvinnulífi auk þess sem það skerti lífsgæði íbúa.

Að baki Bláma standa Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og Vestfjarðastofa og undirrituðu samninginn fyrir hans hönd ráðherrann Guðlaugur Þór og Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma. Fyrir hönd Innviðafélags Vestfjarða undirrituðu samninginn Guðmundur Fertram og Gauti Geirsson.

Guðlaugur Þór var svo með opinn fund í Edinborgarhúsinu í gærkvöldi sem var vel sóttur og var þar farið yfir tillögur í skýrslu starfshóps ráðuneytisins frá síðasta ári um eflingu samfélagsins á Vestfjörðum.