Fara í efni

Kraftmiklar karlaraddir ómuðu undurblítt um safnaðarheimilið í kvöld

Fréttir

Húsfyllir var í safnaðarheimilinu í kvöld er karlakórinn Ernir hélt sína árlegu jólatónleika. Óskar Pétursson stórsöngvari og einn Álftagerðisbræðra söng með kórnum og heillaði hug og hjörtu áheyrenda með söng sínum og framkomu. Einn kórfélaga bauð gesti velkomna og sagði ástæðu þess hve tónleikarnir væru haldnir seint að þessu sinni, hve jólastjarnan í norðri hefði verið seint á ferðinni og átti hann þá við einsöngvarann góðkunna að norðan sem ekki gat komið fyrr vestur. Var það svo sannarlega þess virði að bíða ögn eftir Óskari sem ljómaði líkt og jólastjarna í söngnum. Kraftmiklar karlaraddir sem saman stóðu af lagvissum tenórum og bössum ómuðu um salinn sem einn maður undir stjórn Margrétar Gunnarsdóttur en Guðrún Bjarnveig Magnúsdóttir sá um undirleik auk Margrétar. Í lokin færðu kórfélagar þeim Óskari, Margréti og Guðrúnu Bjarnveigu blómvendir og harðfisk sem vænta má að verkaður sé fyrir vestan, að gjöf.

Ekkert kostaði inn á tónleikanna en kórfélagar líta á það sem jólagjöf til samfélagsins að bjóða fólki að koma og hlusta og njóta þeirra íðilfagra radda sem skipa kórinn. Næstu tónleikar kórsins verða haldnir í Félagsheimilinu á Þingeyri 18. desember kl. 20:00 og í Ísafjarðarkirkju 19. desember kl. 20:00.

Fréttin er afrituð af www.vikari.is.