Í dag var Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra með umræðu- og kynningarfund um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Þar var kynnt sú vinna sem hefur átt sér stað við að gera aðgerðabundna ferðamálastefnu – þá fyrstu sinnar tegundar hér á landi. Drög að aðgerðaáætluninni voru unnin í víðtæku samráði stjórnvalda við fjölda hagaðila. Þau eru byggð á vinnu sjö starfshópa og stýrihóps og voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í nóvember á síðasta ári. Um 100 manns voru í starfshópunum sjö og má þess geta að bæði Sölvi Guðmundsson og Steinunn Ása Sigurðardóttir hjá Markaðsstofu Vestfjarða voru þar á meðal.
Fundurinn í dag var vel sóttur af ferðaþjónum og áhugasömum um þróun ferðaþjónustu á svæðinu og sköpuðust góðar umræður. Þess má geta að einnig var stuðst við hina gagnvirku lausn Mentimeter þar sem fundargestir gátu svarað spurningum fundarstjórnenda í rauntíma og einnig með þeim hætti að upplýsingarnar fylgja þeim úr hlaði.
Þá má benda á að tillaga til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaráætlun til 2030 er nú aðgengileg í samráðsgátt. Er fólk hvatt til að láta í sér heyra vilji það koma athugasemdum á framfæri. Slóðin er: https://island.is/samradsgatt/mal/3702