Fara í efni

Lóan úthlutar styrkjum

Fréttir

Tilkynnt var um úthlutanir nýsköpunarstyrkja Lóu í gær og komu fjórir styrkir til vestfirskra verkefna. Í ár bárust 89 umsóknir og styrki hljóta 27 verkefni sem nema tæplega 139 milljónir króna í heildina. Styrkjum úr Lóu er ætlað að styðja við eflingu byggða og landshluta með nýskapandi verkefnum, auk þess að hlúa að vistkerfi nýsköpunar á landsbyggðinni. Verkefnin eru á fjölbreyttum sviðum, frá nýskapandi verkefnum með sjálfbærni og fullnýtingu afurða að leiðarljósi til uppbyggingu innviða fyrir rannsóknir og þróun og innleiðingu nýrra aðferða og verkfæra fyrir nýsköpunarumhverfið.

Einn styrkurinn að upphæð 2.100.000 kr. kom í hlut Vestfjarðastofu fyrir verkefnið Blátt áfram - lausnir fyrir lífrænar virðiskeðjur. Markmið verkefnisins er að finna og þróa ný verðmæti úr lífrænum lífmassa sem fellur frá sjávarútvegi á Vestfjörðum.

Hæsta styrkinn á Vestfjörðum að upphæð 7.718.000 kr. hlaut samfélagsmiðstöðin Blábankinn á Þingeyri fyrir verkefnið Blábankinn í víðara samhengi. Í lýsingu segir: Blábankinn hefur burði og getu til að styrkja starf sitt með auknum viðburðum og samstarfi. Verkefnið gengur út á að festa sess þess sem tryggur aðili í alþjóðasamstarfi og sem helst sérfræðisetur um byggðaþróun og málefni dreifðra og jaðarsettra byggða.

POLS Engineering fékk styrk að upphæð 2.100.000 fyrir verkefnið Úrvinnsla og framsetning gagna úr SM4 snjómælum. POLS ehf. er nýsköpunarfyrirtæki á Ísafirði sem hefur þróað snjómæla sem kallast SM4 og eru nýttir til snjóflóðavöktunar. Afurðin samanstendur af mælunum, gagnaúrvinnslu og gagnaframsetningu á sérstakri vefsíðu. Í þessu verkefni verður gagnaúrvinnslan og framsetning endurbætt og gerð aðgengileg fyrir bæði sérfræðinga og almenning.

Þá hlaut 822.000 kr styrk Vésteinn Tryggvason fyrir verkefnið Shirako. Shirako er verkefni sem snýr að þurrkun og vinnslu á svilamjöli úr þorsksvilum. Einnig verður unnin innihaldsgreining á mjölinu, en svilamjöl má síðan nota í íslenskan landbúnað. Verkefnið verður unnið á Vestfjörðum og miðar að því að minnka sóun í sjávarútvegi með nýtingu á þorsksvilum sem hafa lítið verið nýtt.

Hér má lesa meira um styrki Lóu að þessu sinni.