Rannsóknasetur skapandi greina stóð fyrir málþingi þann 20. nóvember síðastliðinn í Háskólanum á Akureyri, þar sem fjallað var um áhrif menningar og skapandi greina í landsbyggðum og hlutverki þessara þátta í þróun þeirra. Frummælendur voru: Erna Kaaber, sérfræðingur við Háskólann á Bifröst, sem flutti erindið Menning og skapandi greinar: Landfræðilegt spennusvæði? þar sem hún fjallaði um ólíka þróun menningarstefnu á landsvísu og svo í landsbyggðum. Erna lagði áherslu á að menning og skapandi greinar gætu verið lykilþættir í að draga úr landfræðilegum mismuni og stuðla að jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis.
Björt Sigfinnsdóttir, meðstofnandi og fyrrum framkvæmdastjóri LungA-hátíðarinnar, deildi reynslu sinni af uppbyggingu hátíðarinnar og áhrifum hennar á samfélagið á Seyðisfirði og víðar. Vífill Karlsson hjá SSV og prófessor við Háskólann á Bifröst, kynnti rannsókn sína á landfræðilegum mismun í nýsköpun á Íslandi. Meðal þeirra niðurstaðna sem rannsóknin leiddi í ljós var að nýsköpun í skapandi greinum ætti það á hættu að leggjast af ef Uppbyggingarsjóða nyti ekki við. Stefán Pétur Sólveigarson verkefnastjóri Hraðsins, miðstöðvar nýsköpunar á Húsavík, fjallaði um uppbyggingu og áhrif nýsköpunarjarðvegs og hvernig stuðningur við frumkvöðla og skapandi greina getur eflt atvinnulíf í landsbyggðum.
Að loknum erindum voru pallborðsumræður undir stjórn Eyjólfs Guðmundssonar, fyrrverandi rektors Háskólans á Akureyri. Þar tóku þátt Eva Hrund Einarsdóttir framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, Örlygur Hnefill Örlygsson framleiðandi, Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi og yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú, og Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst. Umræðurnar beindust að því hvernig best væri að nýta menningu og skapandi greinar til að styrkja samfélög í landsbyggðum og hvaða áskoranir og tækifæri væru fram undan.