Á fimmtudaginn í síðustu viku, 16 janúar voru Mannamót Markaðsstofa landshlutanna haldin í Kórnum Kópavogi. Ferðaþjónar á Vestfjörðum létu sig ekki vanta, þó að veður hafi verið hamlandi þetta árið. Mættu 14 aðilar frá öllum svæðum á Vestfjörðum og voru allir sammála um að sýningin hefði tekist með eindæmum vel í ár en gestafjöldi var svipaður og síðasta ár.
Mannamót Markaðsstofa landshlutanna er árleg ferðasýning/kaupstefna sem haldin er af Markaðsstofum landshlutanna. Markmið og tilgangur viðburðarins er að skapa vettvang þar sem landsbyggðarfyrirtæki fá tækifæri til að kynna sína þjónustu og vöruframboð fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Ísland hefur mikið upp á að bjóða og Mannamót hjálpa til við að mynda tengsl innan ferðaþjónustunnar.