Fara í efni

Margir áhugasamir um samfélagslega nýsköpun

Fréttir MERSE
Frá heimsókn MERSE-hópsins í Netagerðina á Ísafirði í vetur. Mynd af Facebook-síðu verkefnisins
Frá heimsókn MERSE-hópsins í Netagerðina á Ísafirði í vetur. Mynd af Facebook-síðu verkefnisins

Vestfjarðastofa stóð fyrir veffundi um samfélagslega nýsköpun í síðustu viku. Vel var mætt á fundinn og ljóst að talsverður áhugi ríkir á málefninu. Hugtakið er fremur lítt þekkt hér á landi þó óhætt sé að fullyrða að fjölmargir starfi á sviði samfélagslegrar nýsköpunar eða leggi til við hana með framlagi sínu. Kveikjan að fundinum var þátttaka Vestfjarðastofu í Evrópuverkefninu MERSE sem er innan Norðurslóðaáætlunarinnar og snýr að því að þróa viðskiptamódel, stuðningskerfi og umgjörð fyrir samfélagsfrumkvöðla sem annað hvort vilja stofna eða þróa samfélagsdrifin verkefni í dreifðum byggðum. Þórkatla Soffía Ólafsdóttir er verkefnisstjóri MERSE hjá Vestfjarðastofu og fjallaði hún um það sem þegar hefur verið gert á vegum verkefnisins og vinnuna framundan, en verkefnið verður í gangi fram á mitt næsta ár. Þrjú verkefni á Vestfjörðum voru valin til þátttöku í MERSE, það eru Skriða á Patreksfirði, Galdrasýningin á Ströndum og Netagerðin á Ísafirði. Forsvarskonur þeirra, þær Birta Ósmann Þórhallsdóttir, Anna Björg Þórarinsdóttir og Heiðrún Björk Jóhannsdóttir sögðu stuttlega frá starfsemi sinni.

Einn helsti sérfræðingur á sviði samfélagslegrar nýsköpunar hér á landi er Stefanía Kristinsdóttir hjá Einurð og skýrði hún hugtakið og birtingarmyndir þess fyrir fundargestum. Sagði hún frá því hvernig þörfin fyrir samfélagslega nýsköpun birtist og að verkefnin spretti upp þar sem ekki er verið að mæta ákveðnum þörfum af hálfu fyrirtækja eða hins opinbera. Samkennd er drifkrafturinn og árangursríkar leiðir byggja á þeirri forsendu að fólk geti sjálft best túlkað reynslu sína og leyst þær áskoranir sem það stendur frammi fyrir. Samfélagsleg nýsköpun tilheyrir oft þriðja geiranum sem kallast þá á við hefðbundna nýsköpun og opinbera nýsköpun.

Vistkerfi samfélagslegrar nýsköpunar byggir á þverfaglegu samstarfi og umhverfi sem styður við þróun á nýjum lausnum og leiðum til að takast á við flókin félagsleg vandamál á skilvirkan hátt. Það samanstendur af hagaðilum, stuðningsumhverfi, rekstrarumhverfi og stefnum stjórnvalda, menningu og samfélagi sem er meðvitað um gildi hennar og tækni sem styður við það sem verið er að fást við.

Samfélagsfrumkvöðlar tileinka sér tiltekna þætti. Segja má að gott samstarf við ólíka aðila sé ákveðið meginstef í starfsemi þeirra. Þeir koma sér upp sterku tengslaneti og byggja upp samstarf á grundvelli samkenndar með notendamiðun að leiðarljósi. Þá eru þeir duglegir að nýta sér styrkjaumhverfið, þeir vinna að sjálfbærni í rekstri, afla sér þekkingar og þróa hugmyndir sínar. Síðast en ekki síst gefast þeir ekki upp í þeirri viðleitni sinni að knýja fram samfélagsbreytingar.

MERSE snýr að samfélagslegri nýsköpun í dreifðum byggðum og er margt sem vinnur með henni í því samhengi, líkt og nálægð og tengsl við lykilaðila og lægri þröskuldar í styrkveitingum. Fólk á landsbyggðinni er líka oft næmara fyrir lýðfræðilegum áskorunum og skorti á innviðum, þá leiðir staðsetningin oft til þess að fólk búi yfir ríkari samfélagsvitund og þátttaka íbúa skiptir höfuðmáli. Nálægð við náttúru og auðlindir er kostur í stöðunni og menning svæða og sérstaða oft áberandi.