Ferðasýningin Vestnorden fór fram í Færeyjum dagana 24. og 25. september, og hefur þar þátttaka aldrei verið meiri en nú. Um 70 íslensk fyrirtæki tóku þátt, meðal þeirra Markaðsstofa Vestfjarða ásamt fyrirtækjunum Fantastic Fjords og Vesturferðum sem í sameiningu héldu uppi merkjum Vestfjarða. Ferðasýningin Vestnorden, sem haldin er af NATA (North Atlantic Tourism Association), er stórviðburður í ferðaþjónustu Norður-Atlantshafsins. Sýningunni er ætlað að tengja ferðasala víðsvegar að úr heiminum við ferðaþjónustuaðila frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi til að þróa og kynnast vöruframboði á þessum einstöku áfangastöðum. Vestnorden er haldið annað hvert ár á Íslandi, en hin árin skiptist á milli Færeyja og Grænlands.
Sterkari sýnileiki Vestfjarða
Markaðsstofan átti fundi með yfir 20 ferðasölum frá ýmsum heimshornum sem leggja áherslu á ríkin þrjú. Það vakti mikla ánægju að vitund um Vestfirði hefur aukist verulega síðustu ár. Fundirnir beindust í auknum mæli að þróun nýrra ferðaþjónustuvara, þar sem áður þurfti frekar að kynna grunninn að áfangastaðnum. Þetta er jákvæð þróun sem styrkir Vestfirði sem eftirsóknarverðan áfangastað fyrir ferðamenn.
Skemmtileg upplifun í Færeyjum
Færeyjar áttu sviðið í ár og fengum gestir sýningarinnar tækifæri á því að fara út úr fundarherbergjum og sækja landið heim; kynnast menningunni, bragða á eldislaxi og skerpukjöti. Farið var til Klaksvíkur, næststærsta bæjar Færeyja, þar sem heimsótt var kirkja, brugghús og handverkshús ásamt því að tölta um bæinn með leiðsögn og hlusta á tónlistaratriði.
Sýningunni lauk með glæsilegum galakvöldverði þar sem bornar voru á borð eðalveitingar. Færeyingar sýndu og sönnuðu hversu góðir gestgjafar þeir eru í veislunni sem endaði með dunandi dansleik. Þar var kynnt að næsti gestgjafi hátíðarinnar, sem haldinn verður á Íslandi, verði Norðurland.
Vestnorden er einstakt tækifæri fyrir ferðaþjóna til að byggja upp tengslanet, kynna vörur sínar og afla sér nýrrar þekkingar í ferðaþjónustu í ríkjunum þremur.