Fara í efni

Markaðsstofa Vestfjarða á World Travel Market í London

Fréttir Markaðsstofa Vestfjarða Vestfjarðaleiðin

Markaðsstofa Vestfjarða ásamt fulltrúum Íslandsstofu og annarra markaðsstofa á landinu tóku þátt í hinni árlegu ferðasýningu World Travel Market (WTM) í London dagana 5.–7. nóvember. Sýningin sem var haldin í Excel sýningarhöllinni í London er ein stærsta ferðasýning heims. Laðaði hún að sér um 46.000 gesti alls staðar að úr heiminum, þar á meðal 5.049 kaupendur og yfir 4.000 sýnendur.

Á íslenska básnum voru fulltrúar markaðsstofa í lykilhlutverki við að kynna Ísland og Vestfirði fyrir alþjóðlegum kaupendum. Aðaláherslan var lögð á að veita nákvæmar upplýsingar um Ísland og tengja alþjóðlega kaupendur við íslensk ferðaþjónustufyrirtæki. Flestar fyrirspurnir um Vestfirðir komu frá kaupendum sem þekkja Ísland vel og leita nú nýrra tækifæra, sem endurspeglar aukinn áhuga á fjölbreytileika landsins.

Áhersla á einstaka upplifun á Vestfjörðum

Sérstakur áhugi kom fram á hjólaferðum og möguleikum á Vestfjörðum, en einnig var rætt um Djúpavík í tengslum við útgáfu ferðahandbókar. Viðburðir á Hornströndum komu einnig til umræðu, þar á meðal áhugaverð tenging við Oliver Smith, blaðamann frá Financial Times. Oliver hefur áður skrifað um heimsókn sína til Hornstranda, þar sem hann rakti sögu afa síns sem starfaði á radarstöðinni Darra í seinni heimsstyrjöldinni. Hann hefur nú deilt rannsóknum sínum og viðtölum með Markaðsstofunni og Byggðasafni Vestfjarða.

Norðurljósin og stjörnuhimininn heilla

Einn af stærstu viðburðum íslenska bássins var fyrirlestur Sævars Braga Helgasonar um norðurljós og sólmyrkva. Fyrirlesturinn vakti mikla athygli meðal gesta sem heilluðust af undrum himinhvolfsins. Sérstaklega var rætt um sólmyrkvann sem verður þann 12. Ágúst 2026 og sést á vestasta hluta Íslands, þar sem sólmyrkvin sést lengst á Látrabjargi eða í 2 mínútur og 13 sekúndur.

Tengsl og tækifæri

Þátttaka í stórum sýningum eins og WTM skiptir sköpum til að styrkja stöðu Vestfjarða sem áfangastaðar. Hún veitir einstakt tækifæri til að mynda tengsl við bæði íslensk og alþjóðleg ferðaþjónustufyrirtæki. Að mati Markaðsstofunnar er nauðsynlegt að íslensk fyrirtæki þekki þau tækifæri og vöruframboð sem Vestfirðir bjóða upp á til að bæta aðgengi og fjölga ferðamönnum í landshlutanum.

Með þátttöku á WTM tekst Markaðsstofu Vestfjarða að vekja athygli á einstökum náttúruperlum Vestfjarða og nýjum ferðamöguleikum sem laða ferðamenn til svæðisins allt árið um kring.