Fara í efni

Menningarráð kynnt á Fjórðungsþingi

Fréttir
Gunnar Hallsson afhendir Albertínu Elíasdóttir gjöf frá Menningarráðinu
Gunnar Hallsson afhendir Albertínu Elíasdóttir gjöf frá Menningarráðinu

Menningarráð Vestfjarða var kynnt á Fjórðungsþingi Fjórðungssambands Vestfjarða í morgun. Gunnar Hallsson formaður ráðsins sagði frá aðdragandanum að stofnun ráðsins, þeim samningum sem starfsemi þess byggir á og hvaða væntingar menn hafa um áhrif og störf ráðsins. Ennfremur þakkaði hann Albertínu Elíasdóttir fyrir samstarfið, en hún er að láta af störfum hjá Fjórðungssambandi Vestfjarða og fara til Skotlands til framhaldsnáms. Albertína hefur af miklum dugnaði stýrt undirbúningsvinnunni og færði Gunnar henni þakkarvott frá Menningarráðinu, bókina Vestfirðir eftir Hjálmar Bárðarson.
 
Jón Jónsson nýráðinn menningarfulltrúi hélt einnig erindi þar sem hann kynnti sig fyrir sveitarstjórnarmönnum og öðrum gestum. Hann fjallaði í framsögu sinni um mikilvægi menningarinnar fyrir Vestfirði, þau áhrif sem öflugt menningarlíf getur haft á ímynd svæðisins, mannlíf og atvinnulíf og þar með búsetuþróun á svæðinu.